Reykhólar: miklar hafnarframkvæmdir standa yfir

Unnið er að endurbyggingar stálþilsbryggjunnar á Reykhólum. Það er framkvæmd sem kostar liðlega 300 m.kr. og verður lokið næsta sumar. Verktakar eru Hagtak hf. sem sér um að undirbúa botninn fyrir stálþilið, og Borgarverk ehf. rekur niður stálþilið, en þessi fyrirtæki hafa yfir að ráða sérhæfðum tækjakosti til þessara verka.

Bryggjan verður stækkuð jafnframt svo að Grettir kemur til með að fá betra skjól inni í höfninni, og ytri viðlegukanturinn verður lengdur svo stærri flutningaskip geta lagst að bryggju.

Fyrsta verkið, fyrir utan að flytja efni á svæðið, var að opna efnisnámu og sprengja klöpp til að ná í gjót og hreint fyllingarefni til að stækka bryggjuna.

Fyrir tveimur vikum var byrjað að reka niður stálþilið í bryggjuna, en hún stækkar umtalsvert þegar það er komið á sinn stað. Í frétt um málið á Reykhólavefnum segir að veðrið hafi verið eins og best verður á kosið miðað við árstíma. 

Undir lok júlí í sumar hrundi niður stór hluti bryggjunnar á Reykhólum. Það hefur legið fyrir um all langt skeið að bryggjan er komin á tíma, en hún er síðan 1974. Brugðist var skjótt við og gert við til bráðabirgða svo höfnin væri nothæf.

Það fer mikið járn í stálþilið.
yfirlitsmynd af stækkuninni.

Myndir: Reykhólahöfn.

DEILA