Ólafur Ragnar fyrrv forseti kemur á fót fræðasetri á Ísafirði

Ólafur Ragnar grímsson stjórnarformaður Arctic Circle.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands hefur lagt fram íbúð í sinni eigu á Túngötu 3 Ísafirði til fræðaseturs á Ísafirði. Fjölmenni var samankomið í húsnæði Háskólasetursins á Vestfjörðum þar sem fram fór málþing og kynning á fræðasetrinu. Auk fyrrverandi forseta Íslands voru Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra , Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri, rektorar þriggja háskóla og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis auk embættismanna og fleiri þátttakendur í viðburðinum.

Erlendum og íslenskum vísindamönnum, sérfræðingum og fræðafólki verður boðið að dvelja í 2-6 vikur í svonefndu Grímshúsi, Túngötu 3 á Ísafirði, sem faðir Ólafs Ragnars, Grímur Kristgeirsson, reisti þar árið 1930. Húsið var upphaflega
flutt til landsins af Norðmönnum í þann mund sem Íslendingar fengu heimastjórn. Forsetinn fyrrverandi eignaðist helming hússins fyrir nokkrum árum og býður nú æskuheimili sitt, tvær hæðir og ris, sem dvalarstað fræðimanna.

Vísindamenn og sérfræðingar á sviðum Norðurslóða, loftslagsmála, umhverfisfræða, náttúrufræða, félagsvísinda, heilbrigðisvísinda, hreinnar orku, sagnfræði og öðrum greinum og á öðrum sviðum geta sótt um að dvelja í húsinu á grundvelli alþjóðlegra auglýsinga.

Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar ýtti með sérstöku málþingi, sem haldið var á Ísafirði í gær, úr vör alþjóðlegu fræðaneti sem rekið verður í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og fleiri aðra. Fræðanetið heitir á íslensku „Fræðadvöl í Grímshúsi“ en á ensku „Grímsson Fellows“.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða fluttu ávörp og Ólafur Ragnar Grímsson stjórnarformaður Arctic Circle gerðir grein fyrir fræðanetinu og tilgangi þess.

Líftæknifyrirtækið Kerecis á Ísafirði mun veita styrki til uppihalds og Háskólasetur Vestfjarða leggur til sérstaka starfsaðstöðu.

Túngata 3 þar sem fræðasetrið verður.
Halla Hrund Logadóttir, Orkumálastjóri lengst til vinstri var fundarstjóri, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri og Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Jónas Guðmundsson sýslumaður og Elías Jónatansson, Orkubússtjóri auk fleiri heimamanna.
Magni Guðmundsson, Sigurður Jónsson og Halldór Halldórsson.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA