Náttúrufræðistofnun: vill ekki fiskeldi

Kvíar Háafells í Vigurál. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um tillögu Svæðisráðs að strandsvæðaskipulagi fyrir Vestfirði kemur skýrt fram að stofnunin telur að of miklar heimildir séu veittar fyrir fiskeldi í sjókvíum í strandsvæðisskipulaginu. Sérstaklega ætti ekki að veita heimildir fyrir fiskeldi þar sem leyfi hefur ekki enn verið veitt og þar sem umhverfismati er ekki lokið fyrir framkvæmd þess. Alls eru það 10 svæði , flest í Ísafjarðardjúpi, þar sem leyfi liggja ekki enn fyrir.

áhrif fiskeldis vanmetin

Náttúrufræðistofnun vill að strandsvæðaskipulag fjalli um alla umhverfisþætti sem skipta máli. Varðandi fiskeldi segir í umsögninni að burðarþolsmat fjarða eitt og sér sé takmarkað mat þegar leggja á mat á sammögnunaráhrif frá öllu fiskeldi innan þeirra og „undanskilur sammögnunaráhrif á aðra umhverfisþætti, t.d. áhrif á viðkvæm búsvæði lífvera, hættu á erfðablöndun við villta fiskistofna, truflun fyrir dýralíf t.d. fugla og sjávarspendýr, ljós- og hljóðmengun frá sjókvíum og aukinni skipaumferð og ekki síst ásýndaráhrif á landslag. Um þessa umhverfisþætti og áhrif á þá mætti fjalla mun betur í strandsvæðisskipulaginu og einnig hvernig skilgreina og útfæra skal ábyrgð á að vakta þessi sammögnunaráhrif, og bregðast við þeim ef þörf þykir á, enda geta margir aðilar komið þar við sögu.“

of mikil nýting

Afleiðingin af þessu, segir í umsögn Náttúrufræðistofnun, er að ákvarðanir um nýtingu á einstökum svæðum í skipulaginu eru teknar án þess að í öllum tilfellum hafi verið lagt fullnægjandi mat á sérkenni og þar með verndargildi
svæðanna. Sökum þessa ætti að mati Náttúrufræðistofnunar að sýna meiri varfærni við ákvörðun um þess háttar nýtingu sem getur valdið raski eða álagi á náttúru svæðisins, en gert er í skipulaginu.

DEILA