Nagladekk: úrræði landsbyggðarinnar

Liðlega 2/3 svarenda á landsbyggðinni í könnun Maskínu aka á negldum vetrardekkjum að staðaldri yfir veturinn eða nánar tiltekið 68%. Á höfuðborgarsvæðinu er þetta hlutfall aðeins 31%. Hinn kosturinn er að aka á ónegldum vetrardekkjum og snýst þá hlutfallið við. Á höfuðborgarsvæðinu aka 68% á ónegldum vetrardekkjum og 32% á landsbyggðinni.

Þegar svör allra á landinu eru tekin saman nota 54% ónegld vetrardekk og 45% negld vetrardekk.

Svörin eru greind eftir landsvæðum og á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem er tekið saman, er notkunin nánast sú sama og á landsbyggðinni í heild, 68% nota negld vetrardekk og 32% ónegld.

Viðreisn naglalaus

Forvitnileg er greining svaranna eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Þar skera stuðningsmenn Viðreisnar sig verulega úr, því aðeins 19% þeirra aka á negldum vetrardekkjum. Heil 81% aka um á ónegldum vetrardekkjum.

Stuðningsmenn Pírata, samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru heldur meira á nagladekkjum eða 35 – 39% þeirra. Stuðningsmenn Sósísalistaflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru nokkuð samstíga í afstöðunni til nagladekkja, 50% hjá stuðningsmönnum Sósíalistaflokksins og 49% sjálfstæðismanna aka á nöglum.

Miðflokksmenn og stuðningsmenn Flokks fólksins eru heldur meira á nöglum eða 55% þeirra.

Stuðningsmenn Framsóknarflokksins eru mest allra fyrir nagladekkin. Í þeirra hópi eru 63% á nöglum.

Könnunin fór fram frá 11. til 15. nóvember 2022 og voru svarendur 950 talsins.

DEILA