Mowi: stærst í laxeldi

Eldiskvíar Mowi í Skotlandi.

Norska fyrirtækið Mowi keypti í vikunni 51,28% hlutafjár í Arctic Fish af öðru norsku fyrirtæki Salmar. Kaupverðið er 1,88 milljarðar norskra króna sem jafngildir nærri 27 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi. SalMar er að kaupa meirihluta í NTS, þriðja norska eldisfyrirtækinu og ákvað að selja frá sér eign sína í Arctic Fish til þess að þau kaup gætu gengið í gegn.

Fyrir vikið verður ekkert af samruna Arnarlax og Arctic Fish, sem að óbreyttu hefðu að meirihluta til komist í eigu sama aðila og starfa þau áfram sem tvö fyrirtæki á Vestfjörðum í eigu sitt hvors norsks laxeldisstórfyrirtækis SalMar og Mowi.

Arctic Fish 53 milljarðar króna virði

Verð á hlutabréfum í Arctic Fish var við lokun kauphallarinnar í Osló í gær 108 NOK á hlut. Umsamið kaupverð Mowi er því 6,5% hærra en það. Markaðsvirði Arctic Fish er samkvæmt þessu um 53 milljarðar íslenskra króna. Fyrirtækið hefur heimildir fyrir eldi á 27.100 tonnum af laxi í sjó og er með umsókn óafgreidda um eldi í Ísafjarðardjúpi. Áætlað er að framleiðslan í ár verði 10.600 tonn. Arctic Fish var stofnað árið 2011.

Mowi er stærsta eldisfyrirtæki í heimi í laxinum. Í fyrra var framleiðslan þess 466.000 tonn í 6 löndum. Auk Noregs var það með framleiðslu í Skotlandi, Færeyjum, Írlandi , Kanada og Chile. Veltan var á síðasta ári um 43 milljarðar norskra króna sem er um 615 milljarðar íslenskra króna.

Í fréttatilkynningu frá Mowi í tilefni af kaupunum segir Ivan Vindheim framkvæmdastjóri fyrirtækisins að á Íslandi séu ákjósanleg skilyrði fyrir laxeldi og fyrirsjánlega verði mikill vöxtur í atvinnugreininni á komandi árum. Hann segir að Arctic Fish framleiði sína vöru með lágu kolefnisfótspori og sé samkeppnishæft fyrirtæki. Vindheim segir að Mowi hafi fylgst með Arctic Fish á undanförnum árum og að tekist hafi að gera fyrirtækið að einu af leiðandi framleiðendum eldislax á Íslandi.

Markaðsvirði Mowi er um 1.800 milljarðar íslenskra króna. Höfuðstöðvar þess eru í Björgvin í Noregi. Fyrirtækið hefur um 11.500 starfsmenn í 25 löndum.

.

DEILA