Minning: Magnús Kr. Guðmundsson

Stórbrotnu æviskeiði er lokið.
Um Magnús Kr. Guðmundsson eða Magnús í Tungu mætti spyrja hvað skapar svo óvenjulegan athafna- og afreksmann? Svarið er trúlega óbilandi elja og dugnaður ásamt hugviti sem honum var gefið. Fyrstu kynni okkar voru að hann kom til Ísafjarðar með bát sinn árið 1970 og vildi fá mikið af veiðarfærum, uppsettri línu. Ég var þá „blautur á bak við eyrun“ nýkominn heim frá Kanada. Margir útvegsmenn voru í basli eftir erfið ár, síldarhrun og verðhrun á þorskblokk áranna 1967- 68. Ég vissi því ekki hvort óhætt væri að selja honum alla þessa línu „upp á krít“. Ég spurði því
stóra bróður ráða. Svar bróður míns, Jóns Páls, var stutt en ákveðið: „Seldu þessum manni eins mikið og þú getur.“ Þetta var gott upphaf samskipta og vináttu við Magnús í Tungu og fyrirtæki hans. Ég átti eftir að selja honum
mikið af veiðarfærum og annast sölu frystra sjávarafurða, skreið til Nígeríu og lax til Evrópu og BNA.
Magnús var sjómaður í orðsins bestu merkingu, hann hóf ferilinn níu ára á skektunni Gyðu, fiskaði þá fyrir heimili foreldra sinna í Tálknafirði. Hann var skráður háseti 12 ára á vélbátinn Gylli BA-214 og tók við skipstjórn hans aðeins sautján ára. Hann stofnar fyrst til útgerðar um bátinn Freyju BA-272 og síðar Guðmund frá Sveinseyri BA-35. Aflasæld
Magnúsar var vel þekkt, ekki síst í glímunni við „silfur hafsins“.
Sumarið 1964 er hann skipstjóri á Jörundi RE-300 og landar þá 1.550 uppsöltuðum tunnum, aflamet þess tíma, sem tók 90 vaskar síldarstúlkur sautján stundir að salta á planinu Borgum á Raufarhöfn.

Hér á Vestfjörðum er vel þekkt glíma Magnúsar við „bjargvætt vertíðar“ steinbítinn og herma sögur að landsþekktir aflamenn hafi elt hann á sjóinn. Íhygli hans og hugvit hafa lengi gagnast þeim er línuveiðar stunda. Hann hannaði bæði dráttarkarl (sjálfdragara) og línubraut í báta sína framleidda í vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri.
Fyrir það þáði hann aðeins ánægju af vel unnu verki og sannast þar orð skáldsins frá Fagraskógi að „fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá“. Merkust að flestra mati er þó athafnasaga hans í landi, fiskvinnsla og fiskeldi. Hans frumhugsun var að byggðin hans nyti góðs af hans athöfnum, hugarfar nútíma viðskiptahátta var honum víðs fjarri. Fyriræki hans Þórsberg var rómað fyrir gæði á Íberíuskaganum.

Fiskeldi var lengi hans hugarfóstur sem hann byggði markvisst upp, beislaði náttúruöflin, raforkuna úr hlíðum, sem hann kallaði Tunguvirkjun. „Tungusilungur“ er vel þekkt og viðurkennt merki.
Við Salbjörg þökkum Magnúsi í Tungu að leiðarlokum góða vináttu, fjölmargar heimsóknir í Þórshamar, hans fagra heimili, og margar heimsóknir á Ísafjörð.
Börnum hans, sem flest búa í Tálknafirði, tengdafólki, barnabörnum, öllum aðstandendum og vinum vottum við innilega samúð.
Magnús getur skilið stoltur við allar þær athafnir sem voru unnar í þágu lítils en öflugs og trausts samfélags sem hann átti stóran þátt í að skapa.

Guð blessi hans góðu minningu.
Ólafur Bjarni Halldórsson.

DEILA