Miðstjórn Framsóknar: brýnt að gera breytingar á sjávarútvegskerfinu

Sigurður Ingi Jóhannsson, Innviðaráðherra. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins var haldinn á Ísafirði um helgina. Í ákyktun fundarins er vikið að sjávarútvegsmálunum og telur miðstjórnin „brýnt að gerðar verði breytingar á kerfinu í sjávarútvegi. Það þarf að staðfesta í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé eins og aðrar auðlindir landsins í eigu þjóðarinnar. Brýnt er að sátt ríki um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja renni til þjóðarinnar.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins sagði í ræðu sinni á fundinum að um sjávarútveginn ríkti ekki friður og hefði ekki gert um langa tíð. Nú stæði yfir vinna á vegum ríkisstjornarinnar þar sem reynt verður að skapa sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein. Sagðist hann hafa talað fyrir því að það verði staðfest í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé eins og aðrar auðlindir landsins í eigu þjóðarinnar. Hann lagði áherslu á það verði að nást sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja renni til þjóðarinnar.

Velti hann því upp hvort stærri hluta kerfisins en nú er ætti að „vera fyrir krókaaflsbáta, fyrir byggðakerfið, fyrir strandveiðar, – hafa skýrt regluverk um þann þátt og læsa honum með eldveggjum? En á móti leyfa markaðnum að taka yfir hinn hlutann og taka þ.a.l. mun hærri gjöld/skatta til þjóðarinnar – þar sem verkefnið að hamla samþjöppun – til að tryggja fjölbreytileika – er tapað.“

Þessar hugleiðingar eru að hluta til svipaðar útfærslu 40% auðlingagjaldsins á fiskeldi í Noregi sem ríkisstjórnin þar hefur nýlega sett fram. Minni fyrirtækin í fiskeldinu eru undanþegin auðlindagjaldinu, sem leggst eingöngu á stóru framleiðslufyrirtækin þar sem stærðarhagkvæmninnar nýtur til fulls. Ekki eru sett hámörk á stærð einstakra fyrirtækja en á móti greiða þau auðlindagjald. Sett eru hámörk í lögum um sjávarútveg um hve mikill hlutur einstakra fyrirtækja í megi vera af útgefinni aflahlutdeild í einstökum fiskistofnum og er ráðherrann í ræðu sinni að ympra á því afnema þau gegn hærra auðlindagjaldi og gegn auknum hlut strandveiða, byggðakvóta og annarra slíkra veiðiheimilda.

DEILA