Mast: sektarfjárhæð miðast við alvarleika og hagsmuna í húfi

Matvælastofnun hefur sektað Arnarlax um 120 m.kr. fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á strokfiski.

Aðpurð hvernig sektarfjárhæð var ákvörðuð segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar að stofnunin hafi beitt stjórnvaldssektum síðan 2016 þó það sé vissulega byggt á öðrum lögum en fyrir fiskeldi, þ.e. lögum um dýravelferð. „Við höfum ákveðinn heimildaramma í lögunum um fiskeldi um fjárhæð sektar ásamt leiðbeiningum þar. Til að ákvarða sektarupphæð þá eigum við að taka tillit til alvarleika, tímalengdar og hagsmuna í húfi. Eins og kom fram í fréttatilkynningu MAST á föstudaginn síðastliðin, þá telur Matvælastofnun að um alvarlegt brot sé að ræða, bæði út frá umfangi og hættu fyrir villta nytjastofna og lífríki, sem og að um er ræða brot sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir með betri stjórn og innra eftirliti fyrirtækisins. Matvælastofnun telur aðgæsluleysi Arnarlax hafi verið vítavert og afleiðingar þess mjög alvarlegar.“

Í lögum um fiskeldi segir í grein um stjórnvaldssektir að sektir geti numið frá 100.000 kr. til 150.000.000 kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, þeirra hagsmuna sem í húfi eru, verðmætis ólögmætrar framleiðslu, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot hefur verið að ræða síðastliðin þrjú ár. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna lögaðila, hann hafi eða hafi getað haft ávinning af broti og hvort hægt hafi verið að koma í veg fyrir brotið með stjórnun og eftirliti.

Arnarlax hyggst kæra ákvörðun MAST um stjórnvaldssekt á fyrirtækið og segir í yfirlýsingu að að Arnarlax hafi greiðlega veitt MAST þær upplýsingar sem óskað var eftir og fyrirtækið hafi ekki haft neinn ávinning af meintu broti.Ennfremur að að öllum viðbragðsferlum fyrirtækisins, sem og lögum og reglum, hafi verið fylgt til hins ítrasta, bæði í aðdraganda óhappsins og í kjölfar þess.

DEILA