Maskína: ólíkt gengi stjórnarflokkanna á vestanverðu landinu

Ríkisstjórnarflokkarnir eiga ólíku gengi að fagna á vestanverðu landinu samkvæmt nýrri könnun Maskínu um fylgi við stjórnmálaflokkana. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fá meira fylgi á Vesturlandi og Vestfjörðum en á landinu í heild. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 21,8% fylgi en á vestanverðu landinu fær flokkurinn 24,5% eða 2,7% meira. Framsóknarflokkurinn mælist með 14,8% fylgi en 19,1% á Vesturlandi og Vestfjörðum þegar svörin eru brotin niður eftir landssvæðum. Það er 4,3% meira en landsfylgið. Þriðji stjórnarflokkurinn Vinstri grænir fá hins vegar minna fylgi á vestanverðu landinu en á landsvísu. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er fylgið aðeins 5,6% en 7,1% á landsvísu.

Niðurbrot Masínu eftir landssvæðum fylgir ekki kjördæmum á landsbyggðinni og vantar vestanvert Norðurland með Vesturlandi og Vestfjörðum til þess að fá upplýsingar um Norðvesturkjördæmi.

Fylgi Samfylkingarinnar mælist 18% á Vesturlandi og Vestfjörðum sem er tvöfalt hærra en fylgi flokksins var í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum á síðasta ári. Píratar fá 11,2% á vestanverðu landinum en Viðreisn, Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkurinn og Miðflokkurinn fá allir lítið fylgið , frá 2,8% – 7%.

Spurt var: Ef kosið yrði til Alþingis í dag hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa. Gild svör voru 2.483. Könnunin fór fram dagana 4. til 22. nóvember 2022.

DEILA