Laxeldi: gögn sem eru sögð staðfesta erfðablöndun ekki birt

Hafrannsóknarstofnun upplýsir ekki hvaða gögn staðfesti að erfðablöndun hafi orðið milli villtra laxa og eldislaxa. Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatns og eldissviðs segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að þær vísbendingar sem talað er um í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar frá 2017 um erfðablöndun hafi „verið staðfestar í megin dráttum með frekari greiningum. Þau gögn sem þá lágu til grundvallar auk viðbótargagna sýna að ekki er vafi á að erfðablöndun milli íslenskra laxa og eldislaxa hafi átt sér stað.“

Spurt var hvar niðurstöður umræddra greininga hafi birst , hvar þær séu aðgengilegar, hverjir hafi unnið að þeim og hvenær þær hafi verið gerðar.

Svör voru ekki veitt við spurningunum en í svari Guðna segir: „Vinna við frekari greiningar gagna og samantekt þeirra í skýrslu stendur yfir. Óskað er eftir ráðrúmi fyrir þá vinnu en skýrsla með niðurstöðum erfðarannsókna er væntanleg innan tíðar.“

Í október kom fram í svari Matvælaráðherra við fyrirspurn á Alþingi ,í þingskjali 403, að samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun hafi erfðablöndun milli eldislaxa og laxa úr villtum stofnum ekki verið staðfest. Tveimur vikum síðar, þann 10. nóvember, birtist viðbótarsvar frá ráðherranum þar sem segir fyrra svar hafi verið byggt á upplýsingum sem reyndust ekki nægilega tryggar. Rangt sé að erfðablöndun hafi ekki verið staðfest.

Í viðbótarsvarinu er vitnað til skýrslu Hafrannsóknarstofnunar frá 2017 þar sem niðurstaðan var að um vísbendingar sé að ræða um erfðablöndun en hún ekki staðfest. Síðar segir í viðbótarsvarinu: „Við greiningar á sýnum, sem síðar hefur verið safnað, hefur fyrri greining verið staðfest, þ.e. erfðablöndun hefur átt sér stað. Frekari rannsóknir og greiningar standa yfir og eru endanlegar niðurstöður væntanlegar í samantekt innan tíðar.“

Bæjarins besta óskaði eftir því að ráðherrann upplýsti hvar niðurstöður umræddra greininga hafi birst , hvar þær séu aðgengilegar, hverjir hafi unnið að þeim og hvenær þær hafi verið gerðar.

Matvælaráðuneytið svaraði ekki fyrirspurnunum heldur vísaði þeim til Hafrannsóknarstofnunar til svara. Eins og að framan greinir kemur fram í svörum stofnunarinnar að greiningu gagna er ekki lokið og skýrsla um rannsóknirnar hefur ekki verið birt.

Það líða aðeins tvær vikur milli þess að Hafrannsóknarstofnun segir að erfðablöndun hafi ekki verið staðfest og svo þess að stofnunin snýr við blaðinu og segir hið gagnstæða, og byggir það á ólokinni vísindalegri úrvinnslu og áður en niðurstöður liggja fyrir.

Þetta er einstök uppákoma. Svona geta fræðimenn ekki starfað. Þarna er stofnunin sjálf að grafa undan eigin trúverðugleika sem vísindastofnunar. Stofnunar sem er ætlað að ráða ferðinni í hafrannsóknum og nýtingu sjávarins.

-k

DEILA