Kerecis hlaut viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM

Guðmundur Ferttram Sigurjónsson er forstjóri Kerecis.

Kerecis hlaut á fimmtudaginn viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2022 fyrir þróun og framleiðslu á lækningavörum úr íslensku fiskroði.

Í umsögn segir að Kerecis sé leiðandi líftæknifyrirtæki og frumkvöðull í notkun á roði og fitusýrum á alþjóðlegum og sístækkandi markaði fyrir lækningavörur. Lækningavörur Kerecis úr íslensku þorskroði hafa bætt líf og líðan tuga þúsunda sjúklinga um allan heim og er hliðarafurð íslensk sjávarútvegs. Með því að nota roðið tekur fyrirtækið þátt í að bæta nýtingu auðlindarinnar og auka verðmætasköpun. Fyrirtækið hóf rekstur árið 2013 og er nú að komast upp á næsta stig og er það fyrirtæki sem vex hraðast í heiminum á sviði meðferðar á vefjaskaða. Ræturnar liggja í vísindum og sjálfbærni þar sem umhverfissjónarmið eru stór þáttur. Kerecis er gott dæmi um sprotafyrirtæki sem hefur með miklum dugnaði skapað sér sess á alþjóðamarkaði og er því hvatning og fyrirmynd fyrir ung sprotafyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar eru veitt ungum fyrirtækjum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum fyrir nýbreytni og þróunarverkefni sem þykir hafa skarað frammúr og skapað væntingar um framlag sem talið er að muni treysta stoðir íslensks sjávarútvegs. 

DEILA