Ísafjörður: óvíst um uppdælingu í Sundahöfn

Frá framkvæmdum við Sundabakka. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Uppdælingarskiptið hefur enn ekki hafið dælingu í Sundahöfn og er því óljóst hvort takist að halda áætlun þessa árs í verkinu. Framkvæmt hefur verið fyrir 88 m.kr. í ár vegna hafnarframkvæmda og eftir á að vinna fyrir 112 m.kr. Áætlað er að um 20 m.kr. eigi eftir að falla til á þessu ári og svo fer það eftir uppdælingunni hve mikið mun falla til í viðbót fyrir áramótin. Hætt var við landfyllingu við Fjarðarstræti og framkvæmdaáætlun lækkuð um 160 m.kr.

Þetta kemur fram í minnisblaði fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar sem lagt var fyrir bæjarráð í morgun. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta er dýpkunarskipið í Arnarfirði og verður þar þennan mánuðinn.

Við fráveitu er áætlað að vinna fyrir 70 m.kr. á árinu og eru enn 64 m.kr. eftir. Það eru 48 m.kr. framkvæmd í Suðurtanga og 22 m.kr. í sameiningu útrása og gatnagerða. Þessi verk eru í framkvæmd á fjórða ársfjórðungi.

Kostnaður við vatnsveitu í Staðardal í Súgandafirði var í lok september orðinn 35 m.kr. Ríkið veitti styrk til verkefnisins og hafa 10 m.kr. verið greiddar og von á öðrum 10 m.kr. fyrir áramót. Þá munu Snerpa og Orkubú Vestfjarða verða rukkuð um 7,9 m.kr. vegna þátttöku þeirra. Segir í minnisblaðinu að kostnaður bæjarins verði í lok ársins samkvæmt fjárhagsáætlun, sem eru 8 m.kr.

DEILA