Ísafjarðarbær: vill efla starfsstöð sýslumanns

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemd við fyrirhugaðar breytingar á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga þar sem gert er ráð fyrir að starfsemi Innheimtustofnunarinnar verði flutt til sýslumanns.

Í samráðsgátt stjórnvalda er til kynningar drög að frumvarpi um þetta efni. Innheimtustofnun sveitarfélaga er með höfuðstöðvar í Reykjavík en hefur starfsstöð á Ísafirði með 7-8 störfum. Gert er ráð fyrir að verkefni stofnunarinnar flytjist frá sveitarfélögunum til ríkisins.

Í umsögn bæjarráðs segir að það fagni því að starfsemin verði í grunninn óbreytt og starfstöðvar verði áfram á höfuðborgarsvæðinu og á Ísafirði og vísar þar til þess sem fram kemur í inngangi greinargerðarinnar með frumvarpinu.

Bæjarráð ítrekar bókun bæjarstjórnar frá 6. janúar 2021 um að staðið verði vörð um störf tengd innheimtu meðlaga í Ísafjarðarbæ og auk þess sem mikil sóknarfæri geta skapast til fjölgunar starfa og fleiri verkefna með því að samþætta starfsemina við aðra starfsemi opinberra stofnanna á vegum ríkisins.

Þá bendir bæjarráð á að með orðavali í 2. kafla greinargerðar með frumvarpinu sé ætlað að efla starfstöðina á Ísafirði, sem fagnað er sérstaklega, en þar segir: ,,Þá eru ótaldir aðrir kostir, svo sem tækifæri til að efla starfsstöð sýslumanns á Ísafirði. Verkefnaáætlun sem liggur fyrir vegna tilfærslu verkefna Innheimtustofnunar sveitarfélaga til sýslumanns miðar að því að efla starfsemina á Ísafirði með því að auglýsa laus störf á þeirri starfsstöð.”

Vesturbyggð: störfin verði á Vestfjörðum

Bæjarráð Vesturbyggðar fjallaði einnig um málið á fundi sínum í síðustu viku. Bæjarráðin leggur áherslu á að með breytingunni verði störfin ekki færð frá Vestfjörðum, þar sem mikilvægt er að opinberum störfum fjölgi frekar á landsbyggðinni en fækki.

DEILA