Ísafjarðarbær: skipulags- og mannvirkjanefnd hafnar umsókn um 50-60 íbúðir

Frá Ísafirði og hluti af áformuðu byggingarsvæði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hafnaði á fundi sínum fyrir helgi umsókn fyrirtækjanna Skeið ehf og Vestfirskir verktakar ehf sem sóttu 7 lóðir á Ísafirði og hyggjast byggja á þeim 50 – 60 íbúðir á næstu fjórum árum. Lóðirnar eru við Aðalstræti, Hafnarstræti og Pollgötu á Ísafirði.

Vísar nefndin í ákvörðun bæjarstjórnar frá 15. september sl. um endurskoðun deiliskipulags miðbæjar Ísafjarðar. Þá segir í bókun nefndarinnar að lóðirnar sem sótt er um séu ekki á lóðalista Ísafjarðarbæjar samanber grein 1.3 í reglum um úthlutun á lóðum fyrir íbúðar-, sumarhúsa og atvinnuhúsnæði. Bendir nefndin á að byggingarréttur við Sindragötu 4a er laus til umsóknar.

Bæjarráð tók öðruvísi á erindinu í síðustu viku og fagnaði erindinu og áhuga á þarfri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu.

DEILA