Ísafjarðarbær: fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði hækkar um 28,2% milli ára

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Áætlaðar tekjur Ísafjarðarbæjar af fasteignaskatti af íbúðarhúsnæði verða um 28,2% hærri á næsta ári en í ár samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta frá Ísafjarðarbæ. Tekjurnar verða 310 m.kr. á næsta ári skv. áætluninni en eru áætlaðar 242,6 m.kr. á þessu ári. Hækkunin er 67,4 m.kr.

Hækkun álagningarprósentunnar úr 0,56% í 0,593% á íbúðarhúsnæði hækkar tekjurnar samkvæmt svarinu um 17.305.009 kr. Hækkunin veldur einnig því að framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Ísafjarðarbæjar hækkar um 10 m.kr. svo hækkunin skilar alls 27.305.009 kr á næsta ári skv. svari Ísafjarðarbæjar.

Þá hækkar holræsagjald á íbúðarhúsnæði um 21,4% milli ára og mun skila 72 m.kr. á næsta ári í stað 59,3 m.kr. á þessu ári. Holræsagjald á bílskúra o.fl. hækkar um 23,3%. Vatnsgjald á íbúðarhúsnæði hækkar einnig töluvert eða um 21,4%.

Alls eru tekjur bæjarins af fasteignagöldum á næsta ári taldar verða 898,6 m.kr. en eru áætlaðar 758 m.kr. á þessu ári. Hækkunin er um 140 m.kr. eða 18,5%.

DEILA