Ísafjarðarbær: bæjarráð tekur vel í Svæðisskipulag Vestfjarða en ekki fjármagn í ár

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók í gær fyrir að nýju erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga þar sem sveitarfélög eru beðin um að setja fjármagn í fjárhagsáætlun 2023 og í þriggja ára fjárhagsáætlun í gerð svæðisskipulags Vestfjarða. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður að hámarki 120 mkr. Gert er ráð fyrir því að styrkur fáist frá Skipulagssjóði og að hlutur sveitarfélaganna verði 65 m.kr. Hlutur Ísafjarðarbæjar yrði skv. því 34,6 m.kr.

Svæðisskipulaginu er ætlað að marka meginstefnu og langtímaframtíðarsýn í umhverfis- og byggðamálum Vestfjarða og stuðla að uppbyggingu Vestfjarða sem landfræðilegri, hagrænni og félagslegri heild sem styrkir byggðaþróun á Vestfjörðum til framtíðar. 

  1. Fjórðungsþing Vestfirðinga að hausti haldið á Patreksfirði 8.-10. september 2022 beindi þeim tilmælum til stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga  að láta hefja vinnu við gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði hið fyrsta. 

Bæjarráðið bókaði að það tæki vel í erindið og telur það mikla þörf á svæðisskipulagi fyrir Vestfirði, einkum hvað varðar friðlýsingar og orkumál. Hins vegar virðist bæjarráðið hafna því að setja fé til verksins á næsta ári.


„Vestfjarðastofa er hvött til að hefja undirbúning á árinu 2023 og finna til þess fjármagn innan fjárheimilda Vestfjarðastofu, svo að sveitarfélög geti gert ráð fyrir verkefninu í fjárhagsáætlunum sínum 2024.“

DEILA