Hábrún í Hnífsdal: misstu af eldissvæði í Djúpinu vegna breytinga Alþingis

Breytingar á lögum um fiskeldi sem Alþingi gerði á árinu 2019 urðu til þess að eldisfyrirtækið Hábrún missti af eldissvæði sem það hafði sótt um í Ísafjarðardjúpi. Sama breyting kom einnig illa við Arnarlax en bæði Arctic Fish og Háafell nutu góðs af.

Þetta kemur fram í viðtali við Davíð Kjartansson, framkvæmdastjóra Hábrún í Fiskifréttum.

Davíð segir að fyrirtæki hafi sótt um leyfi fyrir sjókvíaeldi í Djúpinu á árunum 2016 til 2018. Hábrún sótti um 11.500 tonna leyfi. Þá var unnið að lagabreytingum og Kristján Þór Júlíusson ráðherra hafði lagt til að þeir sem væru búnir að skila inn tillögu að matsáætlun fyrir gildistöku laganna héldu þeim svæðum.

„En svo á vormánuðum 2019, þegar verið er að vinna í nýju fiskeldislögunum, þá gerist eitthvað á milli annarrar og þriðju umræðu á Alþingi. Þá er öllu breytt þannig að í staðinn fyrir að miða við innsenda tillögu á matsáætlun var ákveðið að þau fyrirtæki héldu sínu svæði sem væru búin að skila inn frummatsskýrslu. Ég hef aldrei fengið svör um af hverju þetta var gert, en þetta gerir það að verkum að Skipulagsstofnun neitaði að klára mína tillögu að matsáætlun innan tiltekins tíma. Svo þegar nýju lögin voru að koma inn þá sögðu þeir: Ja, þið eruð bara of seinir.“

Davíð segir að Arnarlax hafi tekist að fá sína umsókn afgreidda eftir eldri lögum en Hábrún hafi eitt setið eftir „og fær bara ekkert að vera með. Skipulagsstofnun neitaði bara að klára okkur.“

Hábrún kærði afgreiðslu Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og varð niðurstaða nefndarinnar sú að Skipulagsstofnun hafi verið óheimilt að hafna því að taka tillögu að matsáætlun til meðferðar og beri stofnuninni að taka til formlegrar afgreiðslu án frekari tafa tillögu kæranda að matsáætlun.

Eftir stendur samt að tillagan hafði ekki verið afgreidd þegar nýju lögin tóku gildi.

https://fiskifrettir.vb.is/sanngirnismal-daudans/

DEILA