Framsókn: Vestfirðir eru á mikilli siglingu

Sigurður Ingi Jóhannsson og Ásmundur Einar Daðason á miðstjórnarfundinum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og Innviðaráðherra sagði í setningarræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem nú stendur yfir á Ísafirði að Vestfirðir væru á mikilli siglingu.

„Hér hefur byggst upp öflug atvinnugrein, fiskeldið, sem hefur haft mikil áhrif og ferðaþjónustan er sífellt mikilvægari fyrir byggðirnar. Fjárframlög til samgangna hafa stóraukist á síðustu árum og hafa Vestfirðingar ekki farið varhluta af þeirri miklu sókn.“ 

Í ræðunni vék hann að orkuframleiðslu og loftslagsmálum og sagði nauðsynlegt að virkja meira og nýta ríkulega möguleika landsins á grænni orkuframleiðslu með vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum.

Spara 100 milljarða kr. í innfluttu jarðefnaeldsneyti

„Við getum ekki horft framhjá því að til þess að standa við skuldbindingar í loftslagsmálum þá þarf að hraða þróun endurnýjanlegra orku. Ef rétt er á haldið munum við ná fullkomnu orkusjálfstæði sem er ekki síst mikilvægt fyrir fæðuöryggi landsins. Við getum orðið með fyrstu þjóðum að framleiða alla orku innanlands, sparað yfir 100 milljarða af gjaldeyri og byggt upp nýjan öflugan grænan iðnað ásama tíma. Hinn kosturinn er sem sagt að virkja ekki meir, halda áfram að flytja inn orku sem nemur milljón tonnum af jarðefnaeldsneyti fyrir yfir 100 milljarða og þurfa að bíða þangað til alþjóðamarkaðurinn framleiðir nóg líka fyrir litla Ísland.“

Frá miðstjórnarfundinum. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA