Framsókn: fordæmir innrás Rússa í Úkraínu

Sigurður Ingi Jóhannsson og Ásmundur Einar Daðason á miðstjórnarfundinum.

Framsóknarflokkurinn hélt haustfund miðstjórnar á Ísafirði um liðna helgi. Liðlega 100 manns mættu til fundarins. Ályktað var að venju um ýmis mál.

Stríðið í Úkraínu er mörgum ofarlega í huga. Miðstjórn Framsóknar fordæmdi „ólöglega og óréttlætanlega innrás Rússlands í Úkraínu og vill árétta mikilvægi þess að Ísland ásamt bandalagsþjóðum sínum haldi áfram að styðja af fullum krafti við frjálsa og fullvalda Úkraínu og íbúa hennar.“

Þarf að virkja

Fundurinn lagði áherslu á að til að hægt sé að mæta skuldbindingum í loftslagsmálum og auka lífsgæði á Íslandi þurfi aukna endurnýjanlega græna orku.  Styðja þarf við græna uppbyggingu og fjárfestingar í innviðum vegna orkuskipta. Skoða verður möguleikana sem felast í framleiðslu og útflutningi á rafeldsneyti. En miðstjórnin lagði áherslu á að nú sem fyrr leggst Framsókn gegn öllum hugmyndum um útflutning á raforku um sæstreng.

Farasæl ríkisstjórn

Í ályktun fundarins um ríkisstjórnarsamstarfið segir að Framsókn sé í farsælli ríkisstjórn þriggja flokka og hafi uppskorið ríkulega í síðustu Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. „Glæsilegur árangur Framsóknar um allt land sýnir að vinnusemi, árangur og stefnumál flokksins í forystu eiga sterkan hljómgrunn meðal kjósenda.“ 

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar lýsti yfir ánægju með störf Framsóknar í ríkisstjórn og segir að mörg áherslumál flokksins hafi fengið góðan framgang og verulegur árangur er í augsýn.  

Voru þar meðal annars nefnd:        

  • Hækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar í 35% 
  • Fyrirhugaða byggingu Þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir 
  • Innleiðingu farsældarlaganna og breytingar á barnaverndarlögum 
  • Átaki í að fjölga íbúðum og markmið um jafnvægi á húsnæðismarkaði til að verja efnahag heimilanna
  • Sundabraut
  • Loftbrú
  • Áhersla á fæðuöryggi
  • Að lýðheilsa sé sett í forgrunn ákvarðanatöku og stefnumótunar 
  • Jafnara aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu og efnahag 
DEILA