Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar árið 2023

Nú hefur farið fram fyrri umræða um fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023.

Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A og B hluta verði jákvæð um 136 millj. og að veltufé frá rekstri verði 777 millj. Þetta er ánægjulegt að sjá miðað við árin á undan og greinilegt að þær hagræðingar sem fyrri meirihluti fór í er að skila sér.

Tekjur hækka verulega milli áranna 2022 og 2023 eða sem nemur 400 millj. sem gerir það að verkum að hægt er að skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Launakostnaður er talinn hækka um 160 millj. milli ára, fer úr 3290 millj. i 3450 millj. Til þess að mæta þeirri hækkun ætlar Í-listinn að hækka fasteignaskatta. Ekki var hlustað á minnihlutann í þessu máli og draga úr rekstrarkostnaði til að mæta þessari hækkun.

Hæstu fasteignaskattar á landinu.

Fasteignaskattur fer úr 435 millj. árið 2022 í 530 millj. eða sem nemur 95 millj.

Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði hækkar úr 242 millj. í 311 millj. eða um 69 millj.  Kostnaður er því 81 þús . á hvern einstakling í bæjarfélaginu.

Hækkunin sem Í-listinn boðar nú er kr.18.000,- á hvern íbúa sveitarfélagsins ef við miðum bara við íbúðarhúsnæði.

Samanburður við önnur sveitarfélög.

Það er nauðsynlegt að bera sig saman við önnur sveitarfélög með álögur og rekstrarkostnað til að vita hvort og þá hvar við getum gert betur.

Ég skoðaði því álögur á íbúa nokkurra sveitarfélaga, tók fjölkjarna sveitarfélög eins og okkar svo samanburðurinn sé raunhæfur.

Bæjarfélag                                           Álagningarprósenta

Ísafjarðarbær 2022                                      0,560 %

Ísafjarðarbær 2023                                      0,593 %

Borgarbyggð 2022                                        0,350 %

Fjarðabyggð 2022                                         0,480 %

Norðurþing 2022                                          0,460 %

Eins og sjá má var álagningarprósentan hæst í Ísafjarðarbæ árið 2022, það er ekki nægjanlegt að mati Í-listans því þau ætla að hækka hana enn frekar, þrátt fyrir að hækkun á fasteignamati hafi verið frá 16-36% milli ára, (mismunandi eftir byggðakjörnum).

Tökum nú dæmi um nýleg húsnæði sem hafa verið byggð á þessum stöðum, í þessu dæmi skoðaði ég u.þ.b. 200 m² einbýlishús, byggt á síðastliðnum 10 árum.

Bæjarfélag                                               Fasteignagjöld                      Mismunur

Ísafjarðarbær                                                481 þús.              

Borgarbyggð                                                 375 þús.                          106 þús.

Fjarðabyggð                                                  295 þús.                          186 þús.

Norðurþing                                                   308 þús.                          172 þús.

Þegar þetta er sett upp með þessum hætti þá kemur yfirleitt upp sú umræða að vatnsgjöld séu svo lág í Ísafjarðarbæ og það verði að taka það inn í jöfnuna.

Við skulum því skoða heildarkostnað íbúa á þessum stöðum, tökum lóðarleigu, fráveitu-, vatnsveitu- og sorpgjöld inn í dæmið þá lítur málið út svona:

Bæjarfélag                                Álagning fasteignargjalda                                  Mismunur

Ísafjarðarbær                                                765 þús.

Borgarbyggð                                                            *

Fjarðabyggð                                                  680 þús.                                                 85 þús.

Norðurþing                                                   619 þús.                                               145 þús.

  • Veitur reka fráveitukerfi Borgarbyggðar og því ekki samanburðarhæft.

Hafa ber í huga að þessar tölur miða við að viðmiðunarsveitarfélögin haldi sömu álagningarprósentu. Sveitarfélög eru að skoða lækkanir til að koma til móts við íbúa, þar má nefna Árborg, Ölfus, Kópavog, Hafnarfjörð og Garðabæ. Öll þessi sveitarfélög hafa lækkað álagningarprósentu til samræmis við hækkun fasteignamats eins og Ísafjarðarbær gerði fyrir árið 2022.

Ætli það sé tilviljun að í öllum þessum sveitarfélögum fer Sjálfstæðisflokkurinn með völd ?

Jóhann Birkir Helgason

Oddviti sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ

DEILA