Byggðasafn Vestfjarða: 49% raunhækkun húsaleigu

Byggðasafn Vestfjarða.

Stjórn Byggðasafns Vestfjarða hefur samþykkt nýjan húsaleigusamning við Ísafjarðarbæ. Er samningurinn til 30 ára og tekur við af samningi frá 2012 sem var með uppsagnarákvæði eftir 10 ár. Greiðir Byggðasafnið mánaðarlega 538.669 kr. frá 1. janúar 2023. Verður því ársleigan um 6,5 m.kr. Leigufjárhæð í eldri samningi var 250.000 kr. Leigufjárhæðin er bundin breytingum á vísitölu neysluverðs. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga frá 2012 er fjárhæðin í eldri samningi 361 þús kr á mánuði í dag. Raunhækkun leigufjárhæðarinnar sem Byggðasafnið greiðir Ísafjarðarbæ er um 49%.

Húseignir sem Byggðasafnið greiðir leigu fyrir eru í nýja samningnum Safnahús í Neðstakaupstað á Ísafirði (Jónshús) að undanskildu rými Upplýsingamiðstöðvar sem rekin er hluta úr ári, , Turnhús í Neðstakaupstað, Safnahús (eldsmiðja) í Neðstakaupstað og Slippur (spilhús) í Neðstakaupstað.

Í eldri samningi var það aðeins Safnahúsið sem var tekið á leigu.

Framlög eigenda hækka í 37 m.kr.

Þá verður veruleg hækkun á framlagi eigenda safnsins, sem eru sveitarfélögin við Ísafjarðardjúp. Árið 2021 var það samtals 22,5 m.kr. en verður á næsta ári 37 m.kr. Hlutur Ísafjarðarbæjar í því er 28.449.000 kr., Bolungavíkurkaupstaður greiðir 7.073.000 kr. og Súðavíkurhreppur 1.578.000 kr.

DEILA