Bolungavík: ný vatnsveita kostar 268 m.kr.

Hið glæsilega nýja sláturhús Arctic Fish í Bolungavík.

Áformað er að gera nýja vatnsveitu í Hlíðardal í Bolungavík á næstu tveimur árum sem sækir vatn í borholur og leysa af hólmi núverandi vatnsveitu sem byggir á hreinsuðu og geisluðu yfirborðsvatni.

Samkvæmt kostnaðaráætlun mun framkvæmdin kosta 268 m.kr. Byggja þarf miðlunartank, lokahús og annað sem tilheyrir vatnsveitunni.

Þegar hafa verið boraðar nokkrar borholur að sögn Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra fæst úr þeim gott vatn, en það gæti þurft að bora meira til þess að mæta aukinni vatnsþörf. Fyrirsjáanleg er uppbygging húsnæðis í bæjarfélaginu, bæði íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Munar þar mikið um laxasláturhúsið sem er í byggingu og verður tekið í notkun á næsta ári.

Jón Páll segir að þörfin á nýrri vatnsveitu sé meðal þeirra innviðafjárfestinga sem fylgir uppbyggingu laxeldisins við Ísafjarðardjúp. Bolungavíkurkaupstaður fékk í ár styrk 33,4 m.kr. úr Fiskeldissjóði vegna framkvæmdanna og mun sækja um áfram um frekari styrki vegna vatnsveitunnar.

Hann segir að kostnaðurinn við nýja vatnsveitu sé sveitarfélaginu ofviða án stuðnings frá Fiskeldissjóði. Eigi sveitarfélögin að geta fylgt uppbyggingu nýrra atvinnugreina eins og fiskeldi þurfi þau að fá tekjustofna til þess að standa undir kostnaðinum. Því sé eðlilegt að gjaldið sem nú rennur í Fiskeldissjóð gangi beint til sveitarfélaganna sem nýr tekjustofn.

DEILA