Boðuð framlög úr ríkissjóði vegna barna með fjölþættan vanda

Mennta- og barnamálaráðuneytið boðar í bréfi til sveitarfélaga framlag úr ríkissjóði til að standa straum af hluta kostnaðar sveitarfélaga á þessu ári vegna barna með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir sem vistuð hafa verið utan heimilis árið 2022 á grundvelli laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Um er að ræða einskiptisaðgerð og verður framlagið hlutfall af heildarkostnaði hvers barns sem fellur undir ofangreint og mun fjárhæð greiðslu til hvers sveitarfélags ráðast af heildarfjárhæð kostnaðar samkvæmt innsendum upplýsingum
frá sveitarfélögum.

Fram kemur í frumvarpi því er varð að lögum nr. 38/2018 að gert er ráð fyrir árlegu fjármagni úr ríkissjóði sem miðar við að mæta kostnaði sveitarfélaga vegna 8-12 barna sem tilheyra þessum hópi.

Nýlega samþykkti bæjarstjórn Bolungavíkur 90 m.kr. útgjöld á þessu ári vegna eins barnaverndarúrræðis og fyrirsjáanlegt er að kostnaðurinn á næsta ári verði 100 m.kr.

Sveitarfélag sendir sérfræðingateymi beiðni um ráðgjöf og mat á þar til gerðu eyðubaði. Teymið fer yfir innsend gögn, leggur mat á aðstæður og sendir sveitarfélagi niðurstöður sínar í leiðbeinandi greinargerð, hvort heldur sem um ræðir ráðgjöf um þjónustu og úrræði eða álit um hvort þörf sé á vistun utan heimilis í sérsniðnu úrræði.

Sérfræðingateymið er hýst hjá Barna- og fjölskyldustofu. Teymið skipa:
Guðrún Þorsteinsdóttir, sviðsstjóri hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð, formaður.
Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir, yfirlæknir á barna og unglingageðdeild.
Hjördís Auður Árnadóttir, sálfræðingur á Stuðlum.
Kristjana Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar

Mennta- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason upplýsti í september í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að stýrihópur undir forystu Haraldar L. Haraldssonar, fyrrv. bæjarstjóra á Ísafirði ynni að því að kortleggja og greina þjónustuþörf barna með fjölþættan vanda og koma með tillögur um viðeigandi úrræði og verka- og kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Áætlað er að stýrihópurinn skili tillögum til ráðherra nú í nóvember 2022.

DEILA