Blámi: skýrsla um orkuskipti í Ísafjarðardjúpi

Út er komin skýrsla sem Blámi lét gera um orkuskipti í Ísafjarðardjúpi. Blámi hlaut styrk úr Loftslagssjóði til að gera áætlun um hvernig og hvenær staðbundin starfsemi í Ísafjarðardjúpi gæti orðið kolefnishlutlaus. Ákveðið var að taka fyrir sjóstangveiðibáta, strandveiðar, fiskeldi, farþegabáta og rækjuveiðar en þessi starfsemi fer að miklu leyti fram í og við Ísafjarðardjúp. Gerð var greining á núverandi orkunotkun og spáð fyrir um hvaða grænorkutækni henti hverri starfsemi, hvenær umskipti yfir í græna orku munu hefjast og hvenær vistvæn orka verði búin að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Jafnframt var gerð greining á innviða-, þjónustu- og þekkingarþörf og hvernig þeir þættir
þurfa að þróast í takt við notkun á vistvænni orku.

Niðurstaðan er sú að raunhæft sé að skipta út jarðefnaeldsneyti í staðbundinni starfsemi í Ísafjarðardjúpi fyrir árið 2040 og uppfylla markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi fyrir þann tíma. Slík umbreyting mun ekki eiga sér stað af sjálfu sér og kallar á stuðning frá hinu opinbera og aukna samvinnu sveitarfélaga og fyrirtækja við Ísafjarðardjúp.

1,5 milljón lítrar af olíu árlega

Í niðurstöðukaflaskýrslunnar segir að gera megi ráð fyrir að olíunotkun vegna starfsemi í Ísafjarðardjúpi muni aukast á næstu árum og verða um 1,5 milljón lítrar árið 2025. Eftir það mun draga úr olíunotkun jafnt og þétt, notkunin verði komin í milljón lítra árið 2030 og árið 2040 verði öll starfsemi í Ísafjarðardjúpi knúinn vistvænum orkugjöfum.

Til þess að svo verði þarf m.a. að huga að orkuöflun og tryggja að hægt sé að mæta aukinni eftirspurn eftir raforku með öruggum og áreiðanlegum hætti.

Skýrsluhöfundar eru Anna María Daníelsdóttir, Tinna Rún Snorradóttir og Þorsteinn Másson.

DEILA