Bjargvættur kvótakerfisins

Magnús Jónsson, fyrrv. Veðurstofustjóri.

Eins og kunnugt er dæmdi Hæstiréttur Íslands 1998 að kvótakerfið í þeirri mynd, sem það hafði fram að þeim tíma verið útfært, stríddi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um jafnræði og atvinnufrelsi. Þessi niðurstaða var síðan í meginatriðum staðfest í úrskurði mannréttinda­nefndar Sameinuðu þjóðanna í október 2007. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við þessum niðurstöðum voru bæði fálmkennd og mótuð af hagsmunagæslu gagnvart þáverandi kvótahöfum. Það var síðan í lok árs 2008 að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með Jón Bjarnason sem sjávarútvegs­ráðherra beitti sér fyrir því að sett yrðu lög um breytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem opnuðu fyrir takmarkaðar heimildir hins almenna borgara til að stunda fiskveiðar hér við land. Má því má segja að með tilkomu strandveiðikerfisins væri að nokkru leyti komið komið til móts við fyrrnefndan úrskurð mannréttindanefndar SÞ og dóm Hæstaréttar Íslands og kvótakerfinu þannig bjargað.

Strandveiðar ekki í aflamarkskerfi

Ljóst er að strandveiðarnar voru aldrei hugsaðar sem hluti af hinu ólögmæta kvótakerfi, enda eru þær í eðli sínu í sóknarmarki en ekki aflamarki. Takmarkanir innan kerfisins eru fyrst og fremst miðaðar við fjölda og tímalengd róðra, árstíma og tiltekna vikudaga sem og fjölda færarúlla, allt sóknartakmarkandi þættir, þótt afli í einstökum róðrum væri takmarkaður. Í upphafi var gert ráð fyrir að afli á þessum veiðum drægist ekki frá úthlutuðum kvóta til þeirra báta sem einnig stunduðu strandveiðar. Það var því augljóslega í mótsögn við tilgang þessa veiði­fyrir­komulags að setja heildarkvóta á strandveiðiafla.

Handfæraveiðar eru í senn umhverfisvænar og sjálf­bærar, hafa verið stundaðar frá upphafi byggðar og eru því hluti af menningu okkar og sögu. Þess vegna er það nánast móðgun við þessa veiðiaðferð að skilgreina strandveiðar og raunar allar handfæraveiðar sem einhverja félagslega starfsemi eða „ölmusu“ sem þurfi að vera upp á „örlæti“ kvótahafa í landinu komin eins og stundum er látið í veðri vaka þegar rætt er um svokallaðan 5,3%-pott kvótakerfisins. Strandveiðarnar eiga ekki heima í neinum „potti“ kvótakerfisins og því eiga stjórnkerfi strand­veiða og kvótakerfis að vera aðskilin og óháð hvort öðru.

Skekkjumörk og vísindaleg óvissa

Engin rök eru fyrir því að veiðar á handfæri geti nokkru sinni ógnað viðkomu fiskistofna. Í því sambandi má benda á að litlar líkur eru á að heildarafli á strandveiðum fari yfir 15.000 tonn í fyrirsjáanlegri framtíð. Sé það magn sett í samhengi við áætlaðan veiðistofn þorsks hér við land og aflareglur kvótakerfanna upp á 20-22% (sjá greinargerð Jóhanns Sigur­jónssonar fv. forstjóra Hafrannsóknastofnunar í okt. 2022) er þetta magn ca. 1-1,5% af meðal­veiðistofni þorsks síðustu 5 árin. Líklegur heildarafli á strandveiðum er því bæði innan breytileika aflareglnanna og langt innan þeirra varúðar- og skekkjumarka sem reiknaðar stærðir fiskistofna miðast við.

Enn er mikil vísindaleg óvissa um það hvort kvótastjórnun á nýtingu fiskistofna sé sú eina rétta, enda fjölmörg dæmi um að hún hafi ekki skilað þeim árangri sem stefnt var að. Má í því sambandi benda á að samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar á síðustu fimm árum hefur þorskstofninn minnkað um ca. 30% þrátt fyrir að í öllu hafi ráðgjöf stofnunarinnar og gildandi aflareglu verið fylgt. Hins vegar hefur nýlega verið ákveðið að auka veiðar á kolmunna á N-Atlantshafi um meira en 80% þrátt fyrir meinta ofveiði úr þeim stofni árum saman. Þá er það staðreynd að síðan að aflamarkskerfinu var komið á 1990 hefur ekki komið fram einn einasti stórárgangur af þorski hér við land þrátt fyrir að hrygningarstofninn hafi vaxið úr um 150.000 tonnum upp úr aldamótum upp í rúm 500.000 tonn 2017, sá stærsti frá 1962. Árleg nýliðun hefur á þessum 30 árum verið að jafnaði um eða innan við 140 milljónir fiska sem er langt undir meðaltalinu á „stjórnleysistímabilinu“ 1960-1990. Á þessu er að sögn vísindamanna engin þekkt skýring.

Einnig má vekja athygli á að skv. nýjustu útreikningum á árlegu afráni hvala á hafsvæðinu umhverfis Ísland er það talið vera rúmlega 13 milljónir tonna, þar af þorskfiskar um 10%. Að sögn vísindamanna er á þessari tölu mjög mikil óvissa og engin þekking er á áhrifum þessa gríðarlega afráns hvalanna á viðkomu þeirra fiskistofna sem nýttir eru hér við land. Þegar öll þessi óvissa og vanþekking er sett í samhengi ætti flestum að vera ljóst að hugsanlegur heildarafli strandveiðanna er algerlega hverfandi og langt innan eðlilegra skekkjumarka sem notuð eru í öllu náttúruvísindastarfi.

Lokaorð

Með vísan til þess sem að ofan er rakið er tekið undir áskorun nýlega afstaðins landsfundar Landssambands smábátaeigenda til Alþingis um að sett verði lög sem tryggi að strandveiðar verði heimilar í a.m.k. 48 veiðidaga á ári. Afla á þessum veiðum á ekki að taka úr aflamarkskerfinu enda eiga þessi fiskveiðikerfi ekkert sameiginlegt, eiga að vera aðskilin og án togstreitu í garð hvort annars. Hins vegar er ástæða til að benda á að með handfæraveiðum á grunnslóð má fá mikilvæg fiskifræðileg gögn ekki síður en með ýmsum „röllum“ og öðrum mælingum sem notaðar eru til vöktunar og rannsókna á fiskistofnum og öðru lífríki sjávar hér við land. Af slíkum gögnum veitir ekki.

Magnús Jónsson

DEILA