Bíldudalur: mygla í skólanum

Bíldudalsskóli.

Allt skólahald í Bíldudalsskóla hefur verið flutt í annað húsnæði á Bíldudal eftir að í ljós kom töluverður raki og myglublettir á takmörkuðum svæðum í Bíldudalsskóla. Það var verkfræðistofan Efla sem gerði úttektina í september. Starfsemin hefur verið flutt tímabundið í annað húsnæði og verið er að vinna að því að gera aðstæðurnar viðunandi fyrir nemendur og starfsfólk.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri segir að gert sé ráð fyrir „að vera a.m.k. út skólaárið í því húsnæði sem við höfum komið okkur fyrir.“ Hún segir að kostnaður við viðgerðir liggi ekki fyrir en Eflu hefur verið falið að kostnaðarmeta þær lagfæringar sem þyrfti að fara í.

Efla tók út einnig annað skólahúsnæði í sveitarfélaginu. Niðurstöður úttektarinnar á Arakletti, Tjarnabrekku og Patreksskóla, leiddu ekki til jafn viðamikilla og brýnna aðgerða og í Bíldudalsskóla. Unnið verður að úrbótum í samráði við Eflu verkfræðistofu.

DEILA