Aukið fiskeldi í Önundarfirði

Frá Flateyri. Aldan ÍS 47 er í eigu ÍS 47 ehf. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

ÍS 47 ehf hefur tilkynnt Skipulagstofnun um fyrirhugaða aukningu eldis í Önundarfirði um sem nemur 900 tonnum af regnbogasilungi og laxi. Fyrirtækið hefur rekstrarleyfi frá Matvælastofnun fyrir 1000 tonna hámarks lífmassa af regnbogasilungi og þorski í Önundarfirði. Fyrirtækið hefur í dag starfsleyfi frá Umhverfisstofnun fyrir 1200 tonnum af regnbogasilungi og þorski.

Sótt er um breytingu á leyfunum og fá heimild fyrir eldi á frjóum laxi. Leyfið er fyrir eldi á tveimur sjókvíaeldisstöðvum, Ingjaldssandi og Valþjófsdal en ætlunin er að flytja fyrra svæðið yfir fjörðinn að Hundsá.

Fyrirtækið setti út 140.000 regnbogasilungsseiði út í Valþjófsdal vorið 2021 sem verður slátrað 2023. Gísli Jón Kristjánsson, framkvæmdastjóri ÍS47 ehf sagði í samtali við Bæjarins besta að fyrirhugað væri að setja út næsta vor regnbogasilungsseiði. Laxeldið færi ekki af stað fyrr leyfin væru í höfn, en að þeim fengnum, gæti það hafist 2024. Vinnsla á eldisfiskinum verður í Hnífsdal hjá Hábrún.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar telur að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, umhverfisáhrifum og mótvægisaðgerðum í tilkynningu framkvæmdaraðila.

DEILA