Arctic circle: málþing á Ísafirði

Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar stendur fyrir málþingi í Háskólasetri mánudaginn 28. nóvember. Þar mun Hr. Ólafur Ragnar kynna fræðadvöl í Grímshúsi á Ísafirði en einnig verða kynnt loftlagsverkefni, nýsköpunarverkefni og önnur strandbyggðaverkefni Norðurslóða.

Rektorar háskólanna þriggja munu ræða um tengsl háskóla og alþjóðlegt fræðasamstarf. Síðan verða sérstakar kynningar á loftslagsverkefnum í smærri samfélögum, og nýsköpun úr auðlindum hafsins, Snjóflóðasetri
Vestfjarða, Náttúrustofu Vestfjarða og útibúi Hafrannsóknarstofnunarinnar á Vestfjörðum.

Með framsögu verða Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og stjórnarformaður Hringborðs Norðurslóða og Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða. Þá verða rektorar Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri með pallborðsumræður. 

Fundarstjóri verður Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri.

Málþingið fer fram á íslensku í kaffisal Háskólaseturs milli kl. 12 og 15.45 og er öllum opið.

DEILA