120 m.kr. í svæðisskipulag Vestfjarða

Frá Fjórðungsþingi á Ísafirði í fyrra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðungssamband Vestfirðinga samþykkti í haust að hefja vinnu við gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði hið fyrsta.  Í erindi Fjórðungssambandsins til sveitarfélaga segir „að svæðisskipulagið marki meginstefnu og langtímaframtíðarsýn í umhverfis- og byggðamálum Vestfjarða, þar sem hagsmunir sveitarfélaganna fari saman til að stuðla að uppbyggingu Vestfjarða sem landfræðilegri, hagrænni og félagslegri heild sem styrkir byggðaþróun á Vestfjörðum til framtíðar.“

Áætlaður kostnaður við skipulagið er um 120 milljónir króna. Hægt er að sækja um styrk úr Skipulagssjóði fyrir helmingi kostnaðar. Telur Fjórðungssambandið að um 65 m.kr. verði hlutur sveitarfélaganna og fer það fram á að sveitarfélögin geri ráð fyrir sínum hlut í fjárhagsáætlunum sínum næstu 4 árin. Hlut sveitarfélaganna er skipt milli þeirra eftir íbúafjölda.

Hlutur Ísafjarðarbæjar verður 34,6 m.kr. þar af 5,3 m.kr. á næsta ári.

Flutningsmenn tillögunnar á Fjórðungsþinginu voru þau Lilja Magnúsdóttir, Tálknafjarðarhreppi, Jóhann Birkir Helgason, Ísafjarðarbæ og Nanný Arna Guðmundsdóttir, Ísafjarðarbæ.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar frestaði afgreiðslu málsins til næsta fundar, og fól bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga um málið.

DEILA