Vesturbyggð: stígagerð í Litladal stöðvuð

Mynd: Mats Wibe Lund.

Vesturbyggð óskaði eftir frestun á framkvæmdum við stígagerð um mánaðamótin ágúst/september í Litladal í Patreksfirði á vegum Skógræktarfélags Patreksfjarðar. Hafði sveitarfélaginu borist ábending frá íbúa þar sem bent var á að formninjar hefðu raskast við framkvæmdina.

Slóðinn liggur á sama stað og forn leið sem liggur um Litladal, yfir Lambeyrarháls og yfir í Tálknafjörð en þessi leið nýtur verndar skv. lögum um menningaminjar nr. 80/2012 og hefði því þurft að hafa fornleifafræðing með í ráðum, segir í bréfi Vesturbyggðar til Skógræktarfélagsins.

Minjavörður frá Minjastofnun Íslands fór í úttekt á vettvangi þann 7.september að beiðni sveitarfélagsins þar sem teknar voru út fornleifar á svæðinu. Segir í skýrslu Minjastofnunar að vegurinn virðist hafa verið lagður yfir hina fornu þjóðleið á um 250 metra kafla.
Niðurstaða minjavarðar var að ekki þyrfti að aðhafast frekar þar sem ekki yrði um frekara jarðrask að ræða á svæðinu en hann gerði kröfu um að hin forna þjóðleið yrði mæld upp áður en framkvæmdir yrðu heimilaðar aftur.

Bæjarráð Vesturbyggðar fer fram á við Skógræktarfélag Patreksfjarðar að sótt verði um framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni sem innifelur í sér skógrækt ásamt veglagningu. Samhliða umsókninni þurfi að berast uppmæling af þjóðleiðinni.

DEILA