Vesturbyggð: 14,4 m.kr. í aukinn snjómokstur

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að hækka áætlaðan kostnað vegna snjómoksturs ársins um 14,4 m.kr. Tekið var tillit til þess kostnaðar sem þegar er orðinn og horft til meðalkostnaðar fyrir tímabilið október – desember, árin 2019 – 2021 við mat á kostnaði sem kann að falla til nú í haust.

Kostnaðinum var mætt með því að kostnaður vegna fjárfestingar í slökkvibifreið færst yfir á árið 2023. Útboð hefur þegar farið fram og var samþykkt í ágúst kaup á bíl, en greiðsla vegna hans kemur ekki til fyrr en á árinu 2023.

Tekjur ársins hafa áður verið hækkaðar um 45,6 m.kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2022, þar af 35 m.kr. af útsvari og fasteignagjöldum einkum vegna fjölgunar skattgreiðenda.

DEILA