Vesturbyggð: 1,1 milljarður króna í ofanflóðavarnir

Mynd úr skýrslu Ofanflóðanefndar.

Alls var varið 1.109 milljónum króna til ofanflóðavarna í Vesturbyggð á árunum 2018 – 2021. Fyrri tvö árin voru aðeins 22 m.kr. og 40 m.kr. til framkvæmda en þær hófust að alvöru árið 2020 með 496 m.kr. framkvæmdum og svo 550 m.kr. í fyrra. Á landinu öllu var varið 5,1 milljarði króna til framkvæmda og voru þær næstmestar í Vesturbyggð, næst á eftir Fjarðabyggð, þar sem framkvæmt var fyrir 2 milljarða króna.

Þetta kemur fram í skýrslu um starf Ofanflóðanefndar fyrir árin 2018-2021.

Árið 2018 hófst vinna við frumathugun á vörnum við Stekkjagil. Þetta sama ár var lokið við að lagfæra ýmsan frágang við Klif og Litludalsá sem var ólokið af fyrri verktaka. Enn á eftir að styrkja vesturbakka efst á framkvæmdasvæðinu við Litludalsá.
Þá var lokið við skýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmda við varnir við Urðir, Hóla og Mýrar á Patreksfirði og þær kynntar á íbúafundi. Árið 2019 var farið að fylgjast með jarðvatnsstöðu á áhrifasvæði framkvæmdanna.
Unnið er að frumathugun varna fyrir Stekkjagil og er áætlað að þeirri vinnu ljúki 2022. Kynningarskýrsla vegna mats á
umhverfisáhrifum varnargarðs við Sigtún liggur fyrir, en hönnun garðsins verður unnin samhliða hönnun varna í Stekkjagili.
Árið 2020 kom í ljós að bæta þarf krapaflóðavarnir við Litludalsá. Þetta sama ár hóf Suðurverk vinnu við gerð varna við Urðir, Hóla og Mýrar. Verklok eru áætluð árið 2023.
Á árinu 2020 lauk vinnu við endurskoðun frumathugunar fyrir varnir fyrir Gilsbakkagil og Milligil á Bíldudal og er nú unnið að mati á umhverfisáhrifum fyrir þá framkvæmd. Áætlað er að þeirri vinnu ljúki 2022.

DEILA