ÚUA: fellir úr gildi bann við kvíum í Trostansfirði

Trostansfjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál úrskurðaði Arctic Sea Farm ehf í vil og felldi úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 17. mars 2002 og ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. mars 2022 um að heimila ekki kynslóðaskipt eldi í sjókvíum í Trostansfirði.

Stofnanirnar gáfu út leyfi fyrir 400 tonna sjókvíaeldi í Arnarfirði á tveimur svæðum, annars vegar við Lækjarbót og hins vegar við Hvestudal, en sótt var um leyfi á þremur svæðum þar sem þriðja svæðið var í Trostanfirði. Höfðu bæði Umhverfisstofnun og Matvæastofnun þannig hafnað Trostansfirði sem eldissvæði.

Rök Matvælastofnunar voru þau að ósar tveggja áa í Trostansfirði, Sunndalsá og Nordalsá séu innan 5 km frá ætluðu eldissvæði og vísaði stofnunin til ákvæða í reglugerð sem mælti fyrir um þessi fjarlægðarmörk.

Úrskurðarnefndin segir álitaefnið vera hvort „ár þær sem renna í Trostansfjörð og óumdeilt er að liggja nær fyrirhuguðu kvíastæði en 5 km, hafi að geyma „villta stofna laxfiska“ og „sjálfbæra nýtingu“, svo girði fyrir áform kæranda.“

Óvíst að árnar beri stofn

Lögð var fram umsögn Hafrannsóknarstofnunar þar sem fram kemur að  að í Sunndalsá sé lax ríkjandi tegund en sjóbirtingur sé ríkjandi í Norðdalsá. Samkvæmt upplýsingum sé veiði þar nokkrir tugir laxa á ári og vottur af sjóbirtingi. Í Norðdalsá sé veiddur sjóbirtingur. Ekki liggi fyrir veiðiskráning úr ánum í veiðibækur. Hefur stofnunin áætlað að fjöldi gönguseiða laxa í Sunndalsá sé einungis um 500 á ári hverju, sem miðað við hvað þekkist um endurheimt laxaseiða úr sjó, verður að telja mjög lítið. Í framhaldi kemur fram það álit að árnar tvær séu það stuttar að mögulega geti þær ekki borið eiginlega stofna laxfiska til lengri tíma án innstreymis laxfiska úr öðrum ám. Hafrannsóknastofnun geti ekki lagt mat á sjálfbærni veiða í Sunndalsá og Norðdalsá vegna skorts á gögnum en veiði hafi ekki verið skráð nema að takmörkuðu leyti.

Að lágmarki 50 fiska meðalveiði í 10 ár

Úrskurðarnefndin segir svo í niðurstöðu sinni: „Í lögum um lax- og silungsveiði er sjálfbær nýting fiskstofna skilgreind svo að það sé nýting þar sem ekki er gengið á fiskstofn. Eftir veiði sé hrygningarstofn nægilega stór til þess að tryggja eðlilega nýliðun og til þess að viðhalda fjölbreytileika stofnsins. Svo sem fram kemur í svari sviðsstjóra ferskvatns- og eldissviðs Hafrannsóknastofnunar við fyrirspurn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, dags. 30. júní 2022, þá hafi stofnunin í tillögu sinni til ráðherra miðað við að hlutaðeigandi stofn þoli veiðiálag og miðað verði þá við að lágmarksmörk skráðrar veiði séu 50 fiska meðalveiði á samfelldu tíu ára tímabili.“

Loks segir: „Á þessum grundvelli kemst [Hafrannsóknar]stofnunin enda til þeirrar niðurstöðu, þótt bundin sé fyrirvara um tiltækar heimildir, að fiskstofnar ánna tveggja falli utan skilgreiningar reglugerðar nr. 540/2020.“ og lokaorð úrskurðarnefndarinnar eru:

„Í ljósi framangreinds verður að telja að Matvælastofnun hafi ekki verið stætt á að synja umsókn kæranda um heimild til að starfrækja sjókvíaeldi í Trostansfirði með vísan til þess að ekki væri uppfyllt skilyrði fjarlægðarreglu 6. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020. Af þeim sökum verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.“

Sambærileg ákvörðum Umhverfisstofnunar var einnig felld úr gildi en vegna þess að Umhverfisstofnun fór út fyrir valdsvið sitt. Henni er óheimilt að útfæra efni starfsleyfa með hliðsjón af skilyrðum öðrum en þeim er varða áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat. Athugasemd Matvælastofnunar um fjarlægðarmörk var utan verksviðs Umhverfisstofnunar.

Getur Arctic Sea Farm nú sótt um til Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar að fá endurskoðað rekstrarleyfi og starfsleyfi nú með leyfi fyrir kvíastæði í Trostansfirði.

Athyglisvert er að úrskurðarnefndin bætti við nákvæmum leiðbeiningum til Matvælastofnunar um hvernig skyldi meðhöndla væntanlega umsókn Arctic Sea Farm.

DEILA