Uppskrift vikunnar – Sjávarréttarsúpa

Súpan slær alltaf í gegn enda einstaklega ljúffeng. Best finnst mér að hafa nóg af grænmeti í súpunni og um að gera að leyfa hugmyndafluginu að njóta sín í þeim efnum. Stundum bæti ég við grænmetistegundum, eins og brokkolí, blaðlauk eða blómkáli og breyti kryddunum þegar mig langar í virkilega bragðsterka súpu en fiskurinn á þó auðvitað að njóta sín.

Uppskriftin er fyrir fjóra.

Hráefni:

5-600 g fiskur (hvaða tegund sem er eða blanda saman)

100-150 g rækjur

½ msk. ólífuolía

1 laukur, smátt saxaður

1 paprika (hvaða lit sem er), kjarnhreinsuð og skorin smátt

2-3 gulrætur, smátt skornar

2-3 hvítlauksrif, marin

1 dós niðursoðnir tómatar

8 dl mjólk

2 dl matreiðslurjómi

1 ½ dl hvítvín, mér finnst best að hafa hvítvínið sætt.

2 fiskiteningar

1 tsk. timjan

½ dl fersk steinselja, smátt söxuð

Salt og grófmalaður pipar

Aðferð:

Mýkið lauk og hvítlauk í ólífuolíunni í potti við vægan hita. Bætið gulrótunum og paprikunni saman við og síðan tómötunum. Látið malla í nokkrar mínútur. Bætið mjólkinni útí og fiskiteningunum. Kryddið með timjan, salti og pipar og bætið síðan matreiðslurjómanum út í. Ef þið viljið nota hvítvín í súpuna þá minnkið annan vökva, mjólk eða matreiðslurjóma sem því nemur, td. um 1 og ½ dl. Hvítvíninu er þá bætt út í um leið og matreiðslurjómanum. Bætið loks fiskinum og rækjunum út í súpuna og látið rétt hitna í gegn áður en súpan er borin fram.

Gott er að gera grunninn að súpunni (allt nema rjómann, hvítvínið og fiskinn og rækjurnar) með nokkrum fyrirvara, td. nokkrum klukkustundum eða daginn áður og þá er hún geymd í kæli og hituð upp með öllu sem fer í hana.

Stráið ferskri steinselju yfir áður en hún er borin fram.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA