Uppskrift vikunnar – Makríll

Makríll er fiskur sem við Íslendingar höfum lítið vanist á matarborðunum heimafyrir, enda hefur hann ekki veiðst hér við land fyrr en á síðustu árum. Við erum ekki vön að borða ókunnuglega fiska, nema í útlöndum, en nú er makrílinn orðinn hálfgerður heimalningur sem kemur hérna til að éta smærri fiska til að fita sig og er þá ekki rétt að gjalda líkt með líku og éta hann. Þessa uppskrift er einföld og góð og um að gera að prufa eitthvað nýtt.

Innihald:

4 makrílflök

2 msk olía

1 rautt chilli, fínsaxað og fræhreinsað

1 skallottulaukur, fínsaxaður

4 hvítlauksrif, fínsöxuð

2 tsk tælensk fiskisósa

1/2 tsk chiliflögur

1 msk hrásykur

salt og pipar

Aðferð:

Hreinsaðu vel flökin, skolaðu vel af roðinu, þurrkaðu þau og stráðu smá salti og pipar yfir báðar hliðar. Láttu til hliðar í 10 mínútur. Saxaðu og taktu til allt annað hráefni á meðan.
Settu nú olíuna í pönnuna og steiktu fiskinn þar til hann er gullinn á báðum hliðum. Mér finnst best að byrja á að steikja hann með roðið niður og steikja í 4-5 mínútur, snúa svo við og steikja í 1-2 mínútur.
Settu nú chili, laukinn, hvítlauk, fiskisósuna og hrásykurinn yfir fiskiflökin og lækkaðu hitann undir pönnunni. Snúðu fisknum nokkrum sinnum á 15-20 sekúndna fresti til að flökin fái nóg af sósu á sig. Sósan þykknar hratt, þegar það gerist er fiskurinn tilbúinn.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA