Umhverfisstofnun: vilja heimild til þess að sekta bíla á nagladekkjum á höfuðborgarsvæðinu

Umhverfisstofnun vinnur að því fyrir Umhverfisráðuneytið að gera áætlun til 12 ára um bætt loftgæði sem gildi fyrir árin 2022- 2033. Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er kveðið á um slíka áætlun og skal hún endurskoðuð á fjögurra ára fresti. Umhverfisstofnun vinnur tillögu í samvinnu við heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna og leggur fyrir ráðherra. Samráð er haft við samband íslenskra sveitarfélaga, samtök atvinnulífsins og fleiri aðila. Tillaga að áætluninni hefur verið kynnt og sent til umsagnar. Fyrsta áætlunin var samþykkt 2017 og gildir hún fyrir árin 2018- 2029.

Nagladekk og flugeldar skotlínunni

Meðal tillagna um aðgerðir er að umferðalögum verði breytt og heimilað verði að taka gjald vegna nagladekkja með það að markmiði að draga úr notkun þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Vegagerðin og hlutaðeigandi sveitarfélög vinni aðgerðaáætlun um rykbindingu og hreinsun gatna í sínu umráðasvæði fyrir árslok 2026 með það að markmiði að draga úr uppþyrlun vegryks og að Dómsmálaráðuneytið nýti lagaheimild til að takmarka magn innflutnings á flugeldum fyrir árslok 2024. Megináhersla er lögð á stóra mengandi skotelda og innleiðingu á kvótakerfi til að stýra innfluttu magni.

Meginmarkmið áætlunarinnar er skilgreint þannig að stuðla eigi að loftgæðum og heilnæmu umhverfi. Til þess er stefnt að því að fækka árlegum ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar um 55% fyrir árslok 2033 og að fækka árlegum fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind heilsufarsmörk af völdum umferðar úr 7-20 skiptum niður í núll skipti fyrir árslok 2033.

Lofgæði góð og svifryk minnst

Fram kemur í skýrslunni að samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) um loftgæði í Evrópu 2021 þá er Ísland með lægsta ársmeðaltal fyrir svifryk PM2,5 (svifryk minna en 2,5 µm í þvermál) og NO2 samanborið við önnur Evrópulönd. Að auki eru sólarhringsmeðaltöl svifryks, NO2,  SO2 og ósons (O3) yfirleitt undir íslensku viðmiðunarmörkum efnanna, þó að styrkur þeirra eigi það til að hækka til skamms tíma í senn (fáar klukkustundir).

Þá segir að veðurfar er oft áhrifavaldur í því þegar mengandi efni fara yfir mörk og er sem dæmi nefnt að á þurrum vetrardögum í logni eða hægum vindi safnast stundum upp loftmengun yfir höfuðborgarsvæðinu, m.a. vegna útblásturs bíla og uppþyrlunar göturyks. Einnig geta vindasamir dagar þeytt upp þurrum jarðvegi frá þeim svæðum þar sem jarðvegsrof er sem mest. Þannig eru dæmi um mikla svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu vegna sandfoks frá söndunum á Suðurlandi eða hálendinu.

Vökun á loftgæðum hefur verið hér á landi frá árinu 1986. Ýmsar framfarir hafa orðið á þeim tíma m.a. með strangara regluverki, m.a. hefur blýmagn í svifryki lækkaði í takt við strangari reglur um blýinnihald bensíns frá árinu 1986.

Þá kemur fram að minni notkun nagladekkja hafi dregið úr sliti á götum og svifryksmengun.

Umhverfisstofnun áformar að skila fullbúinni tillögu sinni að nýrra 12 ára áætlun fyrir árslok þessa árs.


DEILA