Um ber og þau sem tína ber

Mér finnst fátt jafn endurnærandi og gefandi en að tína ber. Síðsumars og haust fer ég upp í hlíðar fjalla með boxin mín í bakpoka og gleymi mér tímunum saman við berjatínslu. Berin borða ég strax, nota í boost, frysti, sulta, safta, þurrka og stundum gef ég þau eða skipti þeim út fyrir annað ætilegt.

Á Norðurlandi þar sem ég bjó um árabil er berjahefðin rík, margir tína mikið og geyma fyrir veturinn, sumir tína enn meira og krækja sér í aukapening með því að selja berin til sultugerðar eða til einstaklinga sem ekki tína sjálfir. Ég man eftir duglegri búkonu í Svarfaðardal sem tíndi alltaf yfir hundrað lítra af berjum og seldi til að drýgja tekjurnar. RÚV tók viðtal við hana enda vissi hún allt um berjasprettu hvers árs. Eins man ég eftir afa vinkonu minnar sem kominn var á eftirlaun, hann var öflugur í berjatínslunni og skaffaði ýmsum ber eða seldi.

Eftirspurn eftir íslenskum bláberjum virðist hafa aukist síðustu ár. Einhver fyrirtæki hafa notað þau í sultugerð og mjólkurvinnslan Arna notar þau í gríska jógúrt. Það er jákvætt að nota lífræn ber sem vaxa villt á Íslandi í matvælaiðnaði. Slík nýting umhverfisvæn enda er vistsporið við ræktun og flutning íslenskra berja nánast ekkert miðað við að flytja til landsins ber ræktuð annarsstaðar.

Eitt finnst mér leiðinlegt og þreytandi við berjaumræðuna, sem á sér víða stað á kaffistofum landsins og ég hef heyrt bæði fyrir norðan og vestan, það eru viðhorfin til fólks af erlendum uppruna sem er að tína ber og selja. Mín upplifun er sú að stundum séu neikvæðari viðhorf gagnvart berjatínslufólki af erlendum uppruna en þeim sem taldir eru vera Íslendingar eins og ég. Ég hef heyrt fullorðið fólk uppnefna berjatínslukonur af asískum uppruna engisprettur, ryksugur, tæjur og Asíu-tjásur. Ég hef heyrt lýsingar eins og að ryksuga eða klippa lyngið og að búið sé að klára berin á heilu svæðunum. Umræðan fer gjarnan inn á þær brautir sem kallaðar eru á ensku „othering“ eða „öðrun“ þar sem talað er um okkur (sem telja sig vera „Íslendinga“) og hina (þeir sem koma að og eru ekki „Íslendingar“). Umræðan fer þá út í það að „hinir“ þ.e. berjatínslufólk sé búið að taka af „okkur“ það sem „við“ eigum tilkall til.

Sannarlega eru til landeigendur sem gera tilkall til þeirra berja sem vaxa á sinni landareign. Sumir hafa sett upp skilti og bannað berjatínslu alfarið á heilu fjöllunum eða í fjörðunum. Raunin er sú að líklega munu flest þau ber sem vaxa fara undir snjó áður en tekst að tína þau. Ekki eru berin uppskera vinnu landeigenda eða eitthvað sem þeir hafa ræktað upp. Nýlega heyrði ég af landeiganda sem stóð erlenda berjatínslukonu að verki við að tína ber í sínu landi og sagan hermir að hann hafi tekið af henni berjaföturnar, án þess að ræða við hana að ráði, og hellt úr þeim fyrir framan hana. Vonandi er þetta ekki sönn saga. Ég spyr mig þó, ef sagan er sönn, var þessi landeigandi einhverju bættari eftir slíkar aðfarir og hefði hugsanlega verið hægt að leysa þennan ágreining með öðrum hætti?

Sjálf hef ég sjálfsagt oft tínt ber í landi landeigenda enda er allt land eign, einstaklinga, sveitarfélaga eða ríkisins. Ég veit ekki alltaf hver á landið og mig grunar að flestir þeir sem fara til berja viti ekki endilega hver á hlíðina. Ég hef aldrei fengið athugasemd vegna minnar berjatínslu og hef ég í raun heyrt af fáum sem hafa fengið athugasemdir. Ég vil því hvetja fólk til að falla ekki ofan í pytt fordómanna og gera mannamun á því hver sé að tína berin og af hvaða uppruna. Slíkt kallast rasismi. Sjálf fagna ég því að berin séu tínd, að þau fari ekki undir snjó og vona að hægt sé að neyta þessara lífrænu, umhverfisvænu og bragðgóðu afurða náttúrunnar í enn meira mæli í framtíðinni, þökk sé öllu því duglega fólki sem er tilbúið að safna þeim saman. Berin eru nefnilega auðlind sem ekki hverfur þó gengið sé á þau – og þau vaxa aftur á næsta ári.

Helga Björt Möller, Ísafirði

DEILA