Tálknafjörður: deilt um styrkveitingu

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps í upphafi fundar númer 600. Talið frá vinstri: Jóhann Örn Hreiðarsson, varaoddviti, Jón Ingi Jónsson, Lilja Magnúsdóttir, oddviti, Guðlaugur Jónsson og Jenný Lára Magnadóttir.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps samþykkti með minnsta mun, þremur atkvæðum gegn tveimur að veita 50.000 kr styrk til Sögufélags Barðastrandarsýslu til útgáfu árbókar fyrir 2022. Oddvitinn Lilja Magnúsdóttir var vék af fundi sökum vanhæfis og varafulltrúi í sveitarstjórn tók sæti við afgreiðslu þessa máls. Jóhann Örn Hreiðarsson og Marinó Bjarnason greiddu atkvæði á móti.

Marinó sagði að erindið væri ágætt og að honum þætti leiðinlegt að neita því, en á hitt væri að líta að Tálknafjarðarhreppur væri skammt frá gjörgæslustigi í fjárhag og verið væri að skera niður á mörgum sviðum svo sem til eldri borgara og honum þætti ekki eiga við að veita styrk við þessar aðstæður.

Á sama fundi var samþykkt að fresta hluta af gatnagerðarframkvæmdum ársins til næsta vors.

DEILA