Smábátaeigendur: vilja endurskoða ráðgjöf Hafró frá grunni

Frá aðalfundi Landssambands smábátaeigenda 2018. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda var haldinn í síðustu viku. Ályktað var sér staklega um ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og segir að endurskoða þurfi aðferðafræði stofnunarinnar frá grunni. Sérstaklega er tekið fram að koma þurfi á samkeppni í hafrannsóknum. Stofnunin er harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki náð þeim árangri í uppbyggingu þorskstofnsins sem að var stefnt.

„Tilraunir Hafrannsóknastofnunar með uppbyggingu þorskstofnsins hefur staðið yfir í 40 ár. Heitstrengingar í upphafi gengu út á að ef farið yrði að tillögum þeirra myndi afraksturinn verða 400 til 500 þúsund tonna jafnstöðuafli. Tillögum þeirra hefur verið fylgt að fullu öll þessi ár. Árangurinn er að þjóðin fær nú helminginn af því sem lofað var, við erum enn um miðja deild. Ekki verður lengur unað við þessa niðurstöðu án umræðu og útskýringa þeirra aðila sem ábyrgð bera. Til þessa hefur Hafró komist upp með að drepa alla umræðu um þessi mál með þögninni og með því að útmála þá sem hafa andmælt sem ómarktæka.“

DEILA