Sjávarútvegsstefnan: samtalið byrjar á Ísafirði

Rebekka Hilmarsdóttir er starfmaður verkefnisins. Mynd: Aðsend.

Matvælaráðuneytið heldur fjóra samtalsfundi sem eru opnir öllum þeim sem hafa áhuga á sjávarútvegi. Sá fyrsti fer fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á morgun kl. 17:00. Á fundinum gefst sem flestum tækifæri til að taka þátt í samtalinu um málefni sjávarútvegs og auðlindarinnar, koma á framfæri tillögum, áherslum, tækifærum og fleira sem nýst getur í störfum starfshópanna fjögurra.

Meginmarkmið verkefnisins Auðlindin okkar er að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning af fiskveiðistjórnunarkerfinu. Lögð er rík áhersla á að verkefnið sé opið, þverfaglegt og gagnsætt og eru opnu fundirnir mikilvægur þáttur í að fá fram sem flest sjónarmið þegar kemur að málefnum auðlindarinnar og sjávarútvegs.

Fundurinn fer þannig fram að Rebekka Hilmarsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Vesturbyggð, starfsmaður verkefnisins mun kynna verkefnið og tilhögun þess. Matvælaráðuneytið er að nálgast þetta verkefni á nýjan hátt og þessir opnu samtalsfundir liður í því. „Þetta verður ekki hefðbundinn fundur þar sem tilbúið efni er kynnt, framsögumenn sitja fyrir svörum og svo umræður. Heldur er það samtalið sjálft sem mun verða kjarninn í fundunum og þannig fá fram hvað fundarmenn telji skipta mestu máli við mótun sjávarútvegsstefnu.“

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðabæjar mun stýra samtalinu á fundinum. Þá verða á fundinum fulltrúar úr starfshópunum fjórum ásamt ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins Benedikt Árnason sem og starfsmenn verkefnisins.

Rebekka leggur áherslu á að mikilvægt er að sem flestir mæti á fundina og deili sínum sjónarmiðum, tillögum og áherslum sem nýtast kunna í vinnu starfshópanna. Hvað til dæmis skiptir sjávarbyggðir á Vestfjörðum mestu máli þegar kemur að sjávarútvegi og auðlindinni og leggja ætti áherslu á við mótun sjávarútvegsstefnu. Vonum við því að sem flestir mæti og taki þátt í samtalinu.

Í maí 2022 skipaði Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu, en nefndin er skipuð fulltrúum stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila. Þá skipaði ráðherra einnig fjóra starfsópa til að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning.

Hlutverk hópanna er fjölbreytt og er ætlað að ná yfir þær ótalmörgu áskoranir og tækifæri sem felast í sjávarútvegi. Þannig er hlutverk hópsins Samfélag að leggja mat á og koma með tillögur sem lúta að samfélagslegri stöðu, þjóðhagslegum ávinningi fiskveiðistjórnunarkerfisins, alþjóðlegan samanburð á fiskveiðistjórnunarkerfum, sjálfbærni og samkeppnishæfni sjávarútvegs, samþjöppun veiðiheimilda, stöðu strandbyggða, byggðakvóta og strandveiðar og mögulega styrkingu, veiðigjöld og skattspor. Hlutverk hópsins Aðgengi lýtur að samkeppni, verðlagsmálum og aðgangshindrunum, eignartengslum í sjávarútvegi og óskyldum greinum, aukið gagnsæi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, kynslóðaskipti og nýliðun. Hlutverk hópsins Umgengi lýtur að umgengni um sjávarauðlindina, vistkerfisnálgun, verndarsvæði og varúðar og aflareglur, rannsóknir á lífríki hafsins og vísindaleg ráðgjöf, orkuskipti, vigtun, brottkast, eftirlit og viðurlög. Þá er hlutverk starfshópsins Tækifæri að leggja mat á og koma með tillögu er lúta að rekjanleika afla, fullvinnslu, gæðamálum og hringrásarhagkerfinu, stafræna umbreytingu, hugverkarétt, rannsóknir, þróun og nýsköpun, alþjóðasamskipti, markaðssetningu, menntun og jafnrétti.

Starfshóparnir hafa síðustu mánuði aflað gagna, hitt hagaðila og unnið með rannsóknarspurningar og kveikjur. Þau sjónarmið og áherslur sem koma munu fram á opnu fundunum munu svo nýtast inn í vinnu hópanna en gert er ráð fyrir að bráðabirgðaniðurstöður starfshópanna liggi fyrir í desember 2022.

Nánar má lesa um verkefnið hér – https://www.stjornarradid.is/audlindin-okkar/

Greinargerð um stöðu vinnu við sjávarútvegsstefnu má nálgast hér – https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3314

DEILA