SFS: hærri skattar og gjöld af fiskeldi á Íslandi en í Noregi

Fiskeldi verður góð tekjulind fyrir stjórnvöld.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa sent frá sér samanburð á sköttum og gjöldum í fiskeldi í Noregi, á Færeyjum og á Íslandi. Kmeur þar fram að þessi þrjú lönd séu einu í heiminum, sem leggja sérstakt auðlindagjald á fiskeldi.

Hér á landi er samkvæmt lögum frá 2019  innheimt sérstakt gjald af öllu fiskeldi í sjó sem ræðst af alþjóðlegu markaðsverði afurða á tilteknu viðmiðunartímabili. Gjaldtakan er hlutfallslega hærri þegar afurðaverðið er hærra, eða allt að 3,5% af markaðsverði á hvert kíló, en gjaldhlutfallið verður að sama skapi lægra þegar afurðaverð lækkar. 

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 voru kynnt áform um hækkun á gjaldhlutfalli fiskeldisgjalds úr 3,5% í 5% og að viðmiðunartímabili verði breytt í almanaksár. Jafngildir það meira en 43% raunhækkun fiskeldisgjalds.

Áætlað er að  fiskeldisgjaldið hér á landi verði um 45-55 kr. á hvert kg þegar það verður komið að fullu til framkvæmda árið 2026, að teknu tilliti til boðaðra hækkunaráforma. Er þá ekki meðtalið gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis og hafnargjöld.

Færeyjar

Fiskeldisgjald af sjókvíaeldi á Íslandi er byggt á færeyskri fyrirmynd, þ.e. þrjú mismunandi gjaldhlutföll þar sem gjaldstofninn ræðst af alþjóðlegu markaðsverði á laxi. Nýverið lögðu fær­eysk stjórn­völd fram tillögur að breytingum á gjaldinu á færeyska Lögþinginu. Breytingartillögurnar felast í því að að gjald­hlut­föll­unum fjölgi úr þremur í fimm, við­mið­un­ar­verð hækki og tekið skuli til­lit til fram­leiðslu­kostn­að­ar. Fyrirliggjandi tillögur í Færeyjum gera ráð fyrir því að gjaldið taki eftirleiðis breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir því sem munur á milli framleiðslukostnaðar og heimsmarkaðsverðs þróast. Með öðrum orðum má segja að gjaldinu sé ætlað að taka tillit til þess hversu aflögufær færeysk eldisfyrirtæki eru hverju sinni.

Noregur

Sértæk gjaldtaka af fiskeldi hófst ekki í Noregi fyrr en  árleg framleiðsla laxeldisafurða var orðin 300 til 400 þúsund tonn. Eins og sakir standa eru framleiðslutengdir skattar og gjöld auk þessu töluvert lægri í Noregi en hér á landi. Undanfarin ár hafa norsk eldisfyrirtæki greitt árlegt framleiðslugjald sem nemur 0,4 NOK á hvert kg, sem samsvarar um 5-6 kr.

Síðustu árin hefur hlutfallslega lítið magn af nýj­um fisk­eld­is­leyf­um verið úthlutað með útboðum. Þar er auk þess um að ræða útboð var­an­legra og framseljanlegra leyfa eins og al­mennt gildir um fisk­eldisleyfi í Nor­egi, en ekki tíma­bund­inn og einstaklingsbundinn rétt, eins og gild­ir á Íslandi. Þau verð sem fyr­ir­tæk­in hafa greitt til þessa fyrir þessi jaðarleyfi hafa því afar takmarkað samanburðargildi við framleiðsluleyfi hér á landi, segir í greinargerð SFS.

Nýlega kynnti ríkisstjórn Noregs tillögur um nýjan auðlindaskatt af sjókvíaeldi. Í stuttu máli felur tillagan í sér að innleiddur verður 40% viðbótartekjuskattur á fiskeldi, svokallaður auðlindarentuskattur. Að teknu tilliti til 22 prósent tekjuskatts jafngildir það tillögu um 62% jaðarskatt af fiskeldi. Virðisauki í vinnslu er undanskilin, fjármagnskostnaður er undanskilinn og notast er við alþjóðlegt markaðsverð á laxi þegar tekjur eru ætlaðar. Jafnframt er gert ráð fyrir að draga megi frá hagnaði sem samsvarar 4-5 þúsund tonna framleiðslu áður en kemur að skattlagningu. Áætlað hefur verið að um 70% af öllum fyrirtækjunum í sjókvíaeldi verði af þessum sökum undanþegin nýja skattinum.

Samanburður

 Á myndunum hér að neðan má sjá samanburð á gjaldtöku í Noregi og á Íslandi fyrir og eftir áætlaðar breytingar, að ákveðnum forsendum gefnum. Gert er ráð fyrir eftirgreindu: (i) 10% hagnaði fyrir alla skatta og fiskeldisgjöld, þar sem tekjur eru 10 ma.kr. og rekstrartengd gjöld að undanskildum fiskeldisgjöldum eru 9 ma.kr.,  (ii) sömu rekstrarskilyrðum í löndunum tveimur og (iii) 11.500 tonna framleiðslu þar sem verð fyrir kíló af laxi er 1.000 kr.

Á grundvelli lýstra forsendna eru settar fram tvær sviðsmyndir. Annars vegar sviðsmynd sem tekur mið af stöðunni eins og hún er í dag, þ.e. að íslensk fyrirtæki greiði 3/7 hluta af 3,5% fiskeldisgjaldi og enginn auðlindaskattur í Noregi. Hins vegar er stillt upp sviðsmynd þar sem miðað er við að boðaðar breytingartillögur gangi eftir, bæði á Íslandi og í Noregi, þ.e. 5% fiskeldisgjald á Íslandi og 40% auðlindaskattur í Noregi. Í samræmi við boðuð áform er við útreikning auðlindaskatts í Noregi undanskilinn hagnaður sem myndast af framleiðslu fyrstu 4.000 tonna.

Eins og sjá má á myndinni eru skattarnir og gjöldin hærri á Íslandi á báðum myndunum en í Noregi.

Myndin breytist aðeins ef gert er ráð fyrir meiri hagnaði af rekstrinum. Miðað við 20% hagnað í stað 10% en að öðru leyti óbreyttar forsendur verður myndin svona:

Nú eru skattarnir og gjöldin hærri á Íslandi en í Noregi en verða lítillega hærri í Noregi ef áform stjórnvalda í báðum löndum ná fram að ganga.

DEILA