Sauðfjársetrið: á annað hundrað á sviðaveislu

Salurinn var þéttsetinn.

Fullt hús var í Sævangi við Steingrímsfjörð á laugardaginn á sviðaveislu sem Sauðfjársetrið stóð fyrir. Jón Jónsson, þjóðfræðingur sagði í samtali við Bæjarins besta að gestir hefðu verið rúmlega eitt hundrað og hefðu verið mjög ánægðir með veisluna, bæði matinn og skemmtiatriðin.

Þetta var fyrsta sviðaveislan hef unnt hefur verið að halda síðan 2019, en covid19 hefur komið í veg fyrir samkomuna. Fyrsta veislan var haldin árið 2012 og hefur veislan nú líklega verið sú níunda í röðinni.

Á boðstólum voru ný heit svið, einnig köld svið reykt og söltuð, ný sviðasulta og reykt sviðasulta og sviðalappir með tilheyrandi meðlæti. Í eftirmat var hinn sívinsæli blóðgrautur, rabarbaragrautur og sherryfrómas. Það var Matthías Lýðsson, bóndi í Húsavík sem verkaði sviðin.

Veislustjóri á sviðaveislunni var Gunnar Röngvaldsson á Löngumýri í Skagafirði. Ræðukona kvöldsins var Rúna Stína Ásgrímsdóttir. Þá var að venju spilað bingó.

Myndir: Sauðfjársetrið.

Matthías bóndi að huga að sviðunum.
Starsfólki sviðaveislunnar klappað lof í lófa.
Veisluföngin.

DEILA