Samtal og samstarf

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

September hefur verið annasamur mánuður hjá okkur á Vestfjarðastofu. Við byrjuðum á að mæta á formlega opnun hins glæsilega útsýnispalls sem kominn er á Bolafjall. Þangað mætti líka öll ríkisstjórnin sem við og fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum áttum síðan góðan fund með á Ísafirði í kjölfarið. 

Fyrr í sömu viku áttum við fund með matvælaráðherra um málefni fiskeldis. 

Dagana 8.-10. september var Fjórðungsþing Vestfirðinga að hausti haldið á Patreksfirði. Þangað mætti drjúgur hluti kjörinna fulltrúa sveitarfélaga á Vestfjörðum.  Þingið var gott og þar áttu sér stað mörg góð samtöl sveitarstjórnarfólks. Þinggerð og ályktanir þingsins hafa verið birt á vef Vestfjarðastofu. 

Tveir starfsmenn Vestfjarðastofu fóru ásamt forstöðukonu Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða í ferð til Noregs til að kynnast uppbyggingu menntunar og rannsókna í fiskeldi. 

Fulltrúi Vestfjarðastofu og Markaðsstofu Vestfjarða fór ásamt nokkrum Vestfirskum fyrirtækjum á ferðakaupstefnuna Vestnorden í Grænlandi um miðjan mánuðinn. Ferð sem reyndar lengdist vegna veðurs á Grænlandi. 

Við tókum á móti samstarfsaðilum frá Póllandi og mögulegum samstarfsaðilum frá Svíþjóð vegna annars verkefnis. 

Nokkrir starfsmenn tóku svo þátt í verkefni Blábankans – Startup Westfjords á Þingeyri um helgina með innleggjum og samtölum. 

Síðusta vika mánaðarins hefur síðan verið varið í fund framkvæmdastjóra og formanna landshlutasamtaka á Húsavík og Landsþing samtaka sveitarfélaga á Akureyri.  Starfsmenn eru á ferðinni með blaðamönnum um Vestfirði og að sinna mörgum og fjölbreyttum verkefnum.  

Við fáum oft spurninguna „hverju skila svo allir þessir fundir?“ Það er ekki alltaf bein lína milli fundar og niðurstöðu eða afurðar.

Samstarf tekur tíma. Það krefst þess að við tölum saman, að við hlustum hvert á annað og það krefst þess að við náum að setja okkur í spor þeirra sem við störfum með.  Stundum er mikilvægasta afurð allra þessara funda sameiginlegur skilningur.

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

DEILA