Samfylking: Arna Lára býður sig fram til ritara

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, býður sig fram til ritara Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands. Ný forysta flokksins verður kjörin á landsfundi 28. – 29. október.

„Ég vil leggja nýrri forystu Samfylkingarinnar lið. Við eigum mikil sóknarfæri og það eru spennandi breytingar í kortunum. Ég tel að mín reynsla geti nýst vel í forystusveit flokksins og breikkað ásýnd hennar.“

Arna Lára hefur verið bæjarfulltrúi fyrir hönd Í-listans frá árinu 2006 og var varaþingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi á árunum 2009-2013 og 2017-2021. Hún var oddviti þegar Í-listinn náði hreinum meirihluta í bæjarstjórn árið 2014 og varð þá formaður bæjarráðs. Nú gegnir hún starfi bæjarstjóra eftir kosningasigur síðasta vor.

„Kristrún Frostadóttir hefur talað fyrir því að leggja ofuráherslu á kjarnamál jafnaðarmanna og að einfalda málflutninginn. Það líst mér vel á. Við þurfum að styrkja stöðu okkar um land allt og ég mun leggja mitt af mörkum í því enda mikil landsbyggðarkona. Það er nauðsynlegt að ný forysta flokksins verði fjölbreytt að því leyti.“

– – – – –

DEILA