RÚV: áfram enginn fréttamaður á Vestfjörðum

RÚV hefur ákveðið að ráða ekki í auglýst starf fréttamanns á Vesturlandi og Vestfjörðum með aðsetur i Borgarnesi.

Aðspurður segir Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri að borist hafi 8 umsóknir. „Við tókum 5 umsækjendur í gegnum ráðningarferlið. Þau sem komu best út úr því voru ýmist búin að ráða sig annað þegar kom að ráðningu eða voru með launahugmyndir sem við gátum ekki mætt.“

Í Skessuhorni, fréttavef á Vesturlandi er haft eftir Heiðari Erni að fréttastofan muni sinna hlutverkinu sem fréttamaðurinn gegndi áður og að starfið verðure endurhugsað frá grunni.

Af því tilefni innti Bæjarins besta eftir því hvort í skoðun væri að ráða aftur fréttamann á Vestfjörðum eða hvort til skoðunar væri að fréttamaður í Efstaleiti sinni Vestfjörðum í stað fréttamanns í Borgarnesi.

„Við erum með fimm stöður fréttamanna á landsbyggðinni en þær eru í augnablikinu ekki fullmannaðar. Það gefur okkur ágætt tilefni og tækifæri til að velta fyrir okkur hvernig við nýtum þessar stöður best til að tryggja sem bestan fréttaflutning af landsbyggðinni. Þær vangaveltur eru rétt að hefjast og því erfitt að segja til um hver verður niðurstaðan. Mögulega verður niðurstaðan sú að óbreytt fyrirkomulag henti best, mögulega ekki.“

DEILA