Reykhólar með hæstu skatttekjur sveitarfélaga á Vestfjörðum

Reykhólar.

Reykhólahreppur var með hæstu skatttekjur sveitarfélaga á Vestfjörðum pr íbúa á síðasta ári samkvæmt upplýsingum um tekjur sveitarfélaga sem birtar eru á vef sambands íslenskra sveitarfélaga. Voru skatttekjurnar 1.578.915 kr/íbúa. Næsthæstu tekjurnar á þennan mælikvarða voru í Strandabyggð 1.281.063 kr/íbúa. Súðavíkurhreppur er með þriðju hæstu tekjurnar kr. 1.265.569 á hvern íbúa. Lægstu tekjurnar voru í Árneshreppi 958.476 kr/íbúa.

Öll sveitarfélögin á Vestfjörðum voru með hærri tekjur en Reykjavíkurborg sem var með 894.648 kr/íbúa.

Með skatttekjum er átt við tekjur af útsvari, fasteignasköttum og framlagi úr Jöfnunarsjóði, auk annarra tekna með skattaígildi.

Framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er mjög misjafnt milli sveitarfélaga enda er því útdeilt til þess að jafna ójafna stöðu sveitarfélaganna af skatttekjum. Tekjur Reykhólahrepps af útsvari eru þær lægstu meðal sveitarfélaga á Vestfjörðum og eru þær aðeins 554.812 kr/íbúa en sveitarfélagið fær langhæstu framlögin úr Jöfnunarsjóð eða 906.009 kr/íbúa.

Það sem helst skýrir hátt framlag Jöfnunarsjóðsins til Reykhólahrepps eru lágar skatttekjur af útsvari og mikill kostnaður við skólahald og skólaakstur.

Bæði Strandabyggð og Súðavíkurhreppur fá há framlög úr Jöfnunarsjóði, um 550 þús kr/íbúa þar sem tekjur af útsvari eru með þeim lægstu meðal sveitarfélaga á Vestfjörðum. Athyglisvert er að fámennasta sveitarfélagið, Árneshreppur, fær lægstu framlögin úr Jöfnunarsjóði og er langhæst í tekjum af fasteignaskatti og slagar hátt upp í Reykjavík.

Önnur mynd blasir við ef skoðað er eingöngu tekjur af útsvari. Það mælir atvinnutekjur og þar eru þær hæstar í Kaldrananeshreppi eða Drangsnesi 708.432 kr/íbúa. Næst kemur Bolungavík með tæplega 702 þús kr/íbúa. Reykhólahreppur er þar í neðsta sæti með aðeins 554.812 kr/íbúa eins og fyrr greinir. Samkvæmt þessi eru nærri 60% af skatttekjum Reykhólahrepps framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

DEILA