Peter Weiss: allir bera ábyrgð á grundvallarmannréttindum

Peter Weiss í ræðustól á málþinginu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða sagði á málþingi hins íslenska þjóðvinafélags á laugardaginn að allir íbúar beri ábyrgð á því að standa vörð um grundvallarmannréttindi. „Við erum öll almannakennarar og við erum líka öll lýðræðisvarnir. Ríkið ber ekki eitt ábyrgðina heldur við öll.“

Ræðumenn fengu það verkefni að fjalla um bjartsýnisspá fyrir árið 2071. Peter Weiss lagði út frá því að ætla mætti að eftir 50 ár væru um 40% landsmanna af erlendu bergi brotnir eða með foreldra, afa eða ömmur með erlendan bakgrunn sem væri tvöfalt meira en er í dag. Slíkt myndi hafa í för með sér verulegar breytingar í þjóðfélaginu. Eitt væri tungumálið og staða þess eins og töluvert væri rætt um þessa dagana. En fleira myndi koma til eins og mismunandi viðhorf til grundvallarmála sem væru ákveðin í stjórnarskránni. Í því samhengi má spyrja sig hvort allir innflytjendur myndu samþykkja okkar viðhorf til kynjanna eða stöðu kvenna eða þá til hlutverks lýðræðisins í þjóðfélaginu. „Það þarf að vera tryggt að allir virði það“ sagði Peter Weiss og lagði áherslu á að það væri verkefni hvers og eins og stuðla að því að svo verði.

Peter sá það fyrir sér og var að því leyti bjartsýnn, að á öllum tímum hefðu 95% innflytjendanna verið lengur en 10 ár búsettir á Íslandi og hefðu tileinkað sér þau grundvallarviðhorf sem viljum hafa og að á hverjum tíma væri nýir landsmenn mikill minnihluti og því ætti með samstilltu átaki landsmanna að takast að standa vörð um grundvallarreglur sameiginlegs lífs og beri þar hæst ákvæðin í stjórnarskránni.

Málþingið var haldið í tilefni af 150 ára afmæli hins íslenska Þjóðvinafélags, en það var stofnað á Alþingi 1871 og var upphaflega nokkus konar stjórnmálaflokkur Jóns Sigurðssonar. Alls voru 6 ræðumenn á málþinginu sem fjölluðu um bjartsýnisspá sína fyrir 2071. Meðal ræðumanna var Ólafur Ragnar Grímsson fyrrv. forseti Íslands.

Málþingið var haldið í Grósku, nýju húsnæði í Vatnsmýrinni.

DEILA