Orkubú Vestfjarða: nýir orkumælar með mánaðarlegum aflestri

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Á undanförnum árum hefur Orkubú Vestfjarða sett upp nýja orkumæla á heimilum, snjallmæla sem mögulegt er að lesa af mánaðarlega í fjarálestri. Í fréttatilkynningu er vakin athygli á því að nú er tækifæri til að leysa af hólmi eldra kerfi við innheimtu, þar sem sendir voru út jafnaðarreikningar sem byggðust á áætlun út frá 1/12 af ársnotkun undanfarins árs, sem síðan var rétt af með álestri í lok þessara 12 mánaða.

Meira en 85% notenda í þéttbýli á Vestfjörðum eru nú með slíka mæla sem hægt er að ná fjarsambandi við. Þeir notendur munu framvegis fá reikning sem verður í samræmi við orkunotkun undangengins mánaðar. Aðrir notendur munu áfram fá áætlunarreikning eins og áður.

Flest fyrirtæki á svæði Orkubúsins hafa nú í meira en eitt ár fengið mánaðarlega reikninga í samræmi við raunnotkun sína í stað áætlunarreikninga. Það hefur mælst mjög vel fyrir að sögn Orkubúsins. Þá hafa æ fleiri almennir notendur óskað eftir að fá reikninga í samræmi við mánaðarlega notkun, m.a. til að vera meðvitaðri um orkunotkun sína.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segist vonast til þess að þessi breyting komi notendum vel og auki meðvitund um orkunotkun. Með rafrænum skilríkjum geta notendur skoðað orkunotkun sína aftur í tímann á Mínum síðum á ov.is, auk þess að skoða reikningsyfirlit og einstaka reikninga.

DEILA