Maskína: minnst óánægja með ríkisstjórnina á Vesturlandi og Vestfjörðum

Ríkisstjórnin á ystu nöf á Bolafjalli í september sl. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Maskína hefur birt greiningu á viðhorfi almennings til starfa ríkisstjórnarinnar. Könnunin fór fram frá 16. til 27. september 2022 og voru svarendur 2.142talsins.

Kjósendur ríkisstjórnarflokkanna voru almennt ánægðir með ríkisstjórnina og stuðningsmenn stjórnarandstöðuflokkanna á hinn bóginn almennt óánægðir. 54% stuðningsmanna Framsóknarflokks og Vinstri grænna voru ánægðir og 65% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Aðeins 6 – 10% stuðningsmanna þessara flokka reyndust óánægðir með störf ríkisstjórnarinnar.

Þetta snýst við hjá stuðningsmönnum annarra flokka. Þar var ánægjan frá 0 – 12% og óánægjan frá 48 – 82%. Stuðningsmenn Viðreisnar skera sig aðeins frá öðrum stjórnarandstöðuflokkum. Ánægja þeirra með störf ríkisstjórnarinnar er 12% sem er hæsta talan meðal þeirra flokka og óánægjan er aðeins 48% en hún er frá 64% hjá öðrum stjórnarandstöðuflokkum og upp í 82% hjá stuðningsmönnum Sósíalistaflokksins.

Þegar svörin eru greind eftir búsetu kemur í ljós að óánægjan með störf ríkisstjórnarinnar er minnst á Vesturlandi og Vestfjörðum. Þar er hún 32%. Á Norðurlandi er óánægjan 34% og 36% á Austurlandi. Á sunnanverðu landinu er óánægjan mun meiri eða 44 – 45%. Athygli vekur að sá hópur sem segist í meðallagi ánægður er 44% og er hvergi stærri en einmitt á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Ánægjan er svipuð á sunnanverðu landinu og á Vesturlandi og Vestfjörðum eða 24 – 26%. Hún er mun meiri á Norðurlandi 33% og Austurlandi 30%.

DEILA