Framsóknarflokkurinn myndi halda þremur þingsætum sínum í Norðvesturkjördæmi samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Flokkurinn myndi fá 25,7% atkvæða á Vesturlandi og Vestfjörðum samkvæmt könnuninni. Þá vantar Húnavatnssýslur og Skagafjörð til þess að hafa upplýsingar um Norðvesturkjördæmið allt, en á Norðurlandi mælist Framsóknarflokkurinn með nánast sama fylgi 25,1% svo það er líklegt að fylgi Framsóknarflokksins í kjördæminu sé það sama.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24,5% á Vesturlandi og á Vestfjörðum, en heldur lægri eða 17,9% á Norðurlandi. Samfylkingin er með 8,0% , Píratar 10,4%, Viðreisn 3,7%, Vinstri grænir 11,1%, Sósíalistaflokkurinn 3,3%, Miðflokkurinn 8,0% og Flokkur fólksins 5,3% á Vesturlandi og Vestfjörðum. Miðað við fylgistölurnar fyrir Norðurland gæti Samfylkingin verið eilítið hærri í Norðvesturkjördæminu öllu, en Sjálfstæðisflokkur og vinstri grænir eitthvað lægri en tölurnar fyrir Vesturland og Vestfirði mæla.
Miðað við þessar tölur fengi framsóknarflokkurinn þrjá þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn 2, Vinstri grænir 1 og Píratar 1. Flokkur fólksins myndi missa sitt þingsæti. Miðflokkurinn er nú með jöfnunarþingsætið. Ekki er unnt að sjá fyrir hver fengið það skv könnuninni , en Samfylking, Miðflokkur og þriðji maður Sjálfstæðisflokksins eru næstir því að ná kjördæmakosningu.
Könnunin fór fram dagana 30. september til 17. október 2022 og voru 1.638 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.
